16 janúar, 2007


Þeir sem þekkja mig vita að mér er svo sem ekkert sérstaklega vel við sprautur... það hefur ekkert að segja að hafa alist upp hjá meinatækni/lífeindafræðingi maður getur samt haft andúð á sprautum... Alla vegana. Fyrir nokkru síðan áttaði ég mig á því að slatti af öllum þessum sprautum sem sí og æ var sprautað í mann á yngri árum eru nú þegar eða mjög fljótlega að renna út. Ég pantaði þess vegna tíma til að láta nú updeita dótið áður en haldið verður í víking til DK. Mín mætti þess vegna "hress og kát" í sprautu eftir vinnu í dag. Eftir smá samningaviðræður við lækninn samþykkti hann að updeita stífkrampann og mænuveikina með því skilyrði að hann fengi líka að gefa mér eitt búst við lifrarbólgu A. Þegar gaurinn síðan snýr sér við til að finna bóluefnin hvað haldiði að mín uppgötvi sér til smávegis skelfingar??!!! Ég fékk þennan líka forláta langerma rúllukragabol í ammæligjöf frá systkinum mínum í gær og í honum var ég... að sjálfsögðu. Eftir misheppnaða tilraun til að tosa aðra ermina upp fyrir öxl spyr ég lækninn hvora öxlina hann vilji og jaxlinn segir báðar! Ég neyðist því til að vippa mér úr bolnum... þetta fannst mér alveg típísk ég... Ég sem alltaf er í stuttermabolum og hlýrabolum þar fyrir innan og ég veit ekki hvað og hvað stóð þarna með ístruna út í loftið og þakkaði guði fyrir að vera í svona frekar efnismiklum brjóstahaldara...

Annars eru helstu fréttir þær að dótið er farið á Samskip, björgunarsveitin er haldin heim á leið og vika í DK!!!