(J)Óli Fel
Jáa...núna er arftakinn fyrir Jóa Fel fundinn!!! Haldið ykkur fast.....
Núna, þar sem heimilisfaðirinn er 50 % heimavinnandi hér í Köben, hef ég ákveðið að skella mér í eldamennsku/bakstur, svona svo maður geti gert eitthvað annað en að sprengja pulsur í pottinum eða mauksjóða hrísgrjónin. Er ég búinn að prófa nokkra rétti á mér og Eyju og erum við það minnsta enn á lífi, sem er alltaf skemmtilegra. Ætla ég ekki að uppljóstra um hvaða rétti er að ræða, en þetta eru ekki 1944 réttir eða eitthvað þvíumlíkt...um er að ræða alvöru heimilismat.
Á ferðum mínum um uppskriftarsíður á netinu hef ég helst rekist á uppskriftir sem innihalda alls kyns furðuleg innihaldsefni eins og t.d. sítrónugras, skalottulauk, sanostur og guð má vita hvað, allt væntanlega eitthvað sem höfundar uppskriftanna hafa smellt inn til að gera þetta meira "fanzý". Gangi mér vel að fara í búðina, með mína menntaskóladönsku, og biðja um sítrónugras...já, eða skalottulauk: "Jeg vil gerne ha lemon gras, har du sådan noget"? Nei...held ekki...!
Það sem ég hef því gert í staðinn er að finna eitthvað sem hljómar líkt og það sem er í "fanzý" uppskriftunum og gerir ábyggilega sama gagn. Setti t.d. rauðlauk í stað skalottulauk og mozzarella ost í stað sanosts. Og það hefur bara gengið svona nokkuð upp....allavegana erum við Eyja ekki enn dauð, eins og áður sagði.
En nóg um uppskriftir og hráefni...þá erum við búin að koma okkur fyrir hér á Dalstriki 107 í Köben...íbúðin afskaplega notaleg og fín, þrátt fyrir töluvert hærri skítastaðla hér í Köben en eru á Fróni....maður verður að læra að aðlaga sig að nýjum hefðum, ekki satt?
Í næstu viku fáum við fyrstu heimsókn af líklega mörgum þennan tíma sem við ætlum að vera hérna. Þá ætla Ína "shoppaholic" og Rúnar að draga okkur í bæinn og gæti ég trúað að við Rúnar fáum ekki mikla hvíld út úr þessu, berandi alla poka og kassa sem frú Borghildur kaupir. En ef maður lítur á björtu hliðina, verð ég kannski jafn massaður og Jói Fel og get farið að kaupa mér stutta, hvíta og þrönga stuttermaboli og smella mynd af sjálfum mér framan á sinnepssósur og skinkusalöt.
Over & Out,
<< Home