14 febrúar, 2008

Raunarsaga úr skólanum

Jæja, sæl veriði. Gleraugnaglámurinn mættur á bloggið og allt að gerast. Ætla að hefja þetta á smá raunarsögu úr skólanum hjá mér sem gerðist í dag:

Þannig er mál með vexti að í GMP kúrsinum sem ég er í (ætla nú ekki að útskýra þann kúrs neitt frekar - Actavis fólk veit allavegana nákvæmlega um hvað ræðir) voru kennararnir svo sniðugir að draga í 5 manna hópa af nemendum sem hafa ólíkan bakgrunn. Þannig lenti ég í hópi með einum frá Grikklandi, 2 Dönum og 1 Indverja. Gríðarlega fjölþjóðlegur hópur þar á ferð.
Verkefni dagsins var að halda örlitla kynningu á heimaverkefninu (sem ég ætla nú ekki að fara út í) og höfðum við í hópnum skipt kynningunni niður í 4 hluta, þar sem annar Daninn (og eina stelpan í hópnum) var í sínu árlega skíðaferðalagi á Himmelbjerget (eða nánast).
Fyrstur tók til máls Grikkinn Antonios sem talar ekki sérstaklega góða ensku, en maður skilur nú samt svona nokkurn veginn hvað hann er að tala um ef maður einbeitir sér svolítið að hlusta á hann. Hann kláraði sinn hluta nokkurn veginn ágætlega. Næstur í pontu var yours truly og verð ég að segja eins og er, fyrirlestrar eru ekki mín sterkasta hlið (svo ég vitna í "my near death experience" í fiskalíffræðinni í gamla daga þegar við Rakel héldum fyrirlesturinn um hornsílin).
Komst ég þó þokkalega í gegnum þetta þó maður hafi stamað töluvert á sumum stöðum.
Næstur á mælendaskrá var annar daninn og hann gerði þetta bara þokkalega...allt í lagi með það. En svo var það rúsínan í pylsuendanum, Indverjinn Suresh.
Það er skemmst frá því að segja að ég efast stórlega um að nokkur lifandi sála hafi skilið hvað hann sagði. Þeir sem þekkja til Indverja og enskunnar þeirra (þ.e.a.s. talað mál-vitna alltaf í Tilda Bashmati auglýsinguna góðu sem tröllreið landanum hérna um árið) geta rétt ímyndað sér Indverja tala á öðru hundraðinu um einhverjar reglugerðir GMP. Og við, hópmeðlimir hans, áttum afar bágt með okkur þarna uppi við töflu og maður þurfti að berjast við hláturinn. Þegar maður leit svo í átt að áhorfendaskaranum, voru þau öll í svipuðum vandræðum!! En hann Suresh var mjög einbeittur, í sparifötunum og svoleiðis og horfði nánast allan tímann á kennarann sem gat lítið annað gert en að kinka kolli til samþykkis um að hann hafi skilið hann......sem ég efast reyndar stórlega um.
Lítil saga úr skólanum.....rosalega skemmtilegt..hehe.

Annars er næst á dagskrá að skella sér í golf næsta laugardag. Sigurbjörn, vinnufélagi minn í Actavis, er á leiðinni til Köben og þar sem hann er forfallinn golfari ætlar hann að taka golfsettið sitt með sér. Þó að spáin sé ekki sérstök (spáð um 3 stiga hita og glampandi sól á laugardaginn) ætlum við að þramma um völlinn góða og týna nokkrum boltum. Alls ekki leiðinlegt.

En þetta er ágætt í bili,

Hilsen........Óli