13 júlí, 2004

Góðan daginn frú mín góð, góðan daginn frú mín góð...

Þessi dagur byrjaði ekki vel. Fór svo öfugu megin fram úr rúminu að annað eins hefur varla sést. Var svo eins og þrumuský í framan alveg bara þangað til rétt áðan. Er annars komin á þessa líka blússandi siglingu á hjólastólunum að ég hef hreinlega komið sjálfri mér á óvart. Annars verð ég að segja eitt. Í gær var ég að deyja í vinnunni, ég var svo þreytt. Fór þess vegna nánast alveg beint heim til þess að fá mér nú góðan blund. Ég var kannski búin að ná því að sofna, er samt ekki alveg viss, en rauk upp með andfælum þar sem það hófst þessi líka agalega hljómsveitaræfing á hæðinni fyrir ofan. Við erum að tala um að það var lögð áhersla á trommusóló þennan daginn. Ofan á þetta allt saman voru svo fjórir augljóslega dyggir aðdáendur búnir að stilla sér upp fyrir framan svefnherbergisgluggann minn. Þeir hrópuðu og kölluðu til að biðja um óskalög og klöppuðu svo eins og þeir ættu lífið að leysa á eftir hverju trommusólóinu á fætur öðru. Þetta er ekkert nema stríðsyfirlýsing. Ég var næstum því hálshöggvin fyrir þriggja mínúntna stopp fyrir utan húsið daginn fyrir Metallica og eftir það hafa allir íbúarnir lagt sig fram um að vera með hávaða í þessi fáu skipti sem ég reyni að sofa. Næst þegar gribbukallinn á efri hæðinni verður með læti ætla ég að strunsa upp og segja: Þessi tónlist er allsendis óviðeigandi. Get ekki beðið eftir tækifærinu...