USA
Já, það er orðið svolítið langt síðan síðast, það er sko nokkuð ljóst. Og það hefur svo mikið gerst að ég hef ekki hugmynd um hvar ég á að byrja. Jú, ég náði öllum prófunum... júhú!!!! Fékk meira að segja 11 í einu þeirra... þokkalega! Og jú ég er búin að setja inn myndir á netið frá því í Haddonfield, Philadelphia, Washington og Baltimore. Svo þið getið alla vegana skoðað í myndum hvað ég hef verið að bralla hingað til! (Eru bara í einu albúmi sem heitir Washington!)
En alla vegana, við mættum út á flugvöll um kl. 4 miðvikudaginn 22. júní og lögðum af stað í þetta mikla ferðalag. Það hófst á að vélinni frá Köben til London seinkaði um 45 mín. og allt leit út fyrir góðan sprett á Heathrow til að ná vélinni til New York. En haldiði ekki að það hafi verið 3 tíma seinkun á næstu vél svo þetta slapp allt saman til. Við vorum samt ekki komin til USA fyrr en um miðja nótt vegna seinkana og í ofanálag vantaði eina töskuna, en það var ekki mín taska sem var eins gott. Eftir stuttan svefn var farið í skoðunarferð um Philadelphia og svo var grillað nautakjöt í kvöldmat. Daginn eftir var svo haldið til Washington. Í Washington lærði ég marga nýja hluti og gerði mér fyrst grein fyrir hvað Ameríkanar eru sér á parti. Við vorum 3 stelpur og 3 strákar sem bjuggum með Lars í litlu íbúðinni hans í Georgetown. Það vakti töluverða athygli á labbinu að við bjuggum öll þar og það var ekki fyrr en við vorum komin til Maine að við uppgötvuðum að það var ekki vegna þess að fólk var að hugsa um hvað það var lítið pláss, ástæðan er alveg örugglega sú að það voru bæði strákar og stelpur. Alveg með ólíkindum hvað þessir Ameríkanar eru ekki að höndla að kynin hafi of mikil samskipti svo fremi að um sé að ræða hjón. Að ég búi með strák og við erum ekki gift hefur vakið töluvert uppþot. Í sannleika sagt hef ég eiginlega svolítið gaman af að valda þessu uppþoti, viðbrögðin sem ég fæ eru svo fyndin. Alla vegana... Við vorum fyrstu vikuna í Washington og notuðum tímann til að læra aðeins á það sem við eigum að vera að gera í sumar og svo var það öll pappírsvinnan sem fylgir því að "flytja" tímabundið til USA. Okkur tókst til dæmis að láta arga á okkur á skrifstofunni þar sem við áttum að sækja um social security number, án þess að hafa gert nokkuð af okkur. Og það var svört kona sem tók að sér að vera með þessi læti og ekki það að liturinn á henni skipti máli en ég skildi bara ekkert af því sem konan sagði. Hún talaði svo mikið með einhverjum hreim sem ég var svo lengi að meðtaka að ég held ég hafi sjaldan hlustað með jafnmiklum áhuga á nokkurn mann sem hefur þurft að arga á mig. Og bæ ðe vei, þá fengum við ekki þetta blessaða númer í þessari tilraun.
Sigga mætti í opinbera heimsókn til mín í Washington og það var alveg hrein snilld að hitta hana. Við gátum bara talað íslensku eins og ekkert væri og enginn vissi hvað málið var. Algjör snilld. Svo notuðum við tímann í að vera túristar og skoða allt þetta merkilega plús að fá nuddsár undan skónum. Kíktum líka í nokkrar búðir en frammistaðan á þeim vígstöðunum var ekki upp á marga fiska, eitt skópar og ein sólgleraugu eða svo. Skammarlegt alveg hreint. Við höfum þó þá afsökun að við bara höfðum svo stuttan tíma... Tökum þetta með trompi næst!!!
Þegar líða tók á seinni hlutann á dvölinni í Washington upphófust miklar vangaveltur um hvernig við ættum nú að komast upp til Maine öll sömul. Á endanum var tekin sú ákvörðun að leigja trukk undir dótið og svo einn bílaleigubíl og til þess að það væri ekki bara einn bílstjóri á hvorum bíl var ég skráð sem ökumaður á litla bílinn. Svo var mér bara skellt upp í bíl og sagt að keyra. Ég verð alveg að viðurkenna að mér leist ekkert sérstaklega vel á þessa hugmynd svona í byrjun. Líka vegna þess að við leigðum litla bílinn degi áður en við fórum til Maine og ég var látin keyra "litlu börnin," það eru sko Danirnir sem ekki voru nógu gamlir til að mega keyra bílaleigubíl, til Baltimore. Við fórum sem sagt 3 til Baltimore án þess að hafa minnstu glóru út í hvað við værum að fara. En þetta gekk allt saman upp og við komumst heilu á höldnu frá Washington til Baltimore og til baka og svo daginn eftir hingað upp eftir. Mér fannst það samt frekar spögst eins og Danirnir segja að hafa aldrei keyrt annars staðar en á Íslandi og vera svo bara sett upp í bíl í Washington DC og látin keyra. Á leiðinni til Maine fékk ég líka að keyra í gegnum jaðarinn á New York during rush hour. En þetta var bara nokkuð hressandi. Ferðalagið frá Washington til Salisbury Cove tók samt alveg smá stund sko. Við lögðum af stað um hálf tólf á hádegi frá DC og vorum fyrst komin á leiðarenda kl. 4 um nóttina. Og við stoppuðum bara 3 rétt til að draga andann...
Annars þá hefur fyrsta vikan hérna á Mount Desert Island farið í að taka upp úr kössum og setja allar græjurnar upp á rannsóknarstofunni. Við erum samt búin að klippa hjartað úr 3 litlum hákörlum og búin að setja í gang celleculture með PC12 frumum. Að auki erum við Gitte búnar að smíða eins og eina hillu svo þetta er mjög fjölbreytt eins og er. Og ég er loksins búin að fá það á 100% hreint hvað ég er að fara að gera í sumar. Ég er sem sagt að fara að rannsaka hvaða áhrif adrenalín hefur á straum kalsíumjóna í hjartavöðvafrumum. Og mér finnst þetta allt alveg geggjað spennó. Ég var samt svo heppin að ég fæ að vinna með yfirprófessornum sem er alveg grumpy með meiru. Ég hef ekki ennþá upplifað heilan dag þar sem hann ekki hefur verið pirraður út af einhverju, nema á föstudaginn þar sem maðurinn mætti ekki í vinnuna. Svo það verður fjör að reyna að gera honum til hæfis... En skítt með það. Ég og Gitte búum saman á herbergi í einu af nýju dormitoriunum og höfum það geggjað næs með internettengingu, síma og það er upphitað og bara allt. Stákarnir, sem eru Michael frá DK og Steve sem er P.hd. studerende við Georgetown University verður líka að vinna á rannsóknarstofunni í sumar, fengu herbergi í einu af gömlu dormunum og það er ekki einu sinni upphitað. Þeir eru svolítið abbó, skal ég segja ykkur... hehehe. Í þessu tilfelli var ágætt að vera stelpa og fá forgang.
Annars er nú svo sem ekki mikið að frétta. Lífið er bara mjög rólegt og gott og ekkert stress í gangi. Vikuna í Washington og fyrstu dagana hér var alveg geggjað gott veður en síðustu daga er bara búið að rigna á okkur. Við teljum að ástæðan sé sú að við fjárfestum í sólarvörn. Við notuðum síðasta laugardag í að fara á kanó sem var mjög gaman. Við rérum einhverja óravegalengd á einu af vötnunum hérna á eynni og fengum okkur smá sundsprett. Var mjög gaman. Svo er mér búið að takast að kaupa mér nýja Nike skó á skid og ingen ting plús að ég er búin að fara einu sinni út að hlaupa. Svo styttist bara í að Óli sæti mæti á svæðið sem verður svooooooo gaman. Lítur að vísu út fyrir að við verðum að sofa í tjaldi, en það verður bara stuð!!
Alla vegana, þetta er orðið svo langt að ég þori að veðja að flestir eru löngu búnir að gefast upp á að lesa svo ég er að hugsa um að segja þetta bara gott í bili. Ætla ekki að lofa að það verði stutt þangað til ég skrifa næst... Hafið það sem allra best
Eyja
<< Home