Heimilisleysi
eða ekki... Þangað til síðasta þriðjudag leit út fyrir að ég og Ragnheiður þyrftum að flytja út úr íbúðinni fyrir jól og enn sem komið var vorum við heimilislausar eftir jólafríið. En hann Tahi vinur okkar mætti eins og engill að sækja póst á þriðjudaginn og spurði hvort okkur langaði ekki að vera í íbúðinni svona aðeins 1-2 mánuði lengur. Váá hvað ég var fegin. Var farin að sjá fyrir mér að mæta til Köben 1. janúar 2006 og eiga hvergi heima. Já vinur, ég á að mæta í skólann 2. janúar kl. 9 svo ég átti ekkert val og á þess vegna flug til DK 1. jan. Er ekki sátt að þurfa að öllum líkindum að vera ekki hjá mömmu og pabba og Ínu og Gunnari um áramótin. Þetta verða pottþétt léleg áramót... En björtu hliðarnar, ég þarf ekki að búa í tjaldi í Köben.
Það hefur heldur ekki veitt af að líta á björtu hliðarnar á Rauðalæknum undanfarið. Kyndiklefinn er að gefa upp öndina, eða réttara sagt vatnslagnirnar í þessum ljóta klefa. Við erum að sjálfsögðu næstu nágrannar kyndiklefans og erum með rakaskemmdir í eins og einum hornskáp og einum vegg. Þetta leit samt út fyrir að vera verra á tímabili þegar píparinn hringdi í Óla og sagðist vera á leiðinni að brjóta upp eldhúsgólfið vegna leka. Það hefur þó skipst á með skyni og skúrum í þessu máli og ýmist hefur lekið lögn í gólfinu í eldhúsinu eða í veggnum. Þessir píparar áttu sem sagt í einhverjum erfiðleikum með sig og virtust ekki geta ákveðið sig hvar þessi blessaði leki væri. Óli er búinn að vera í beinu símasambandi við tryggingafélagið og píparana og verið eins og skopparakringla að hleypa hverjum píparanum og tryggingaeftirlitsmanninum inn heima hjá okkur á fætur öðrum. Endanleg niðurstaða fékkst svo að lokum í dag og eru verklegar framkvæmdir að hefjast í eldhúsinu á morgun. Þess vegna eru allir sem vettlingi geta valdið í þessum töluðu orðum í eldhúsinu heima hjá mér að pakka því inn í plast þar sem brjóta á gat á vegg í fyrramálið. Það verður því gat á eldhúsveggnum fram í næstu viku en þá mæta múrararnir á svæðið og þegar öllu þessu er lokið er að öllum líkindum næst á dagskrá að uppþvottavélinni verður kippt út úr innréttingunni og gert við hornskápinn. Váááá hvað ég er fegin að vera bara á kafi í skít í Danmörku núna...
Annars held ég að ég sé búin að finna hina einu og sönnu ástæðuna fyrir því af hverju Ólinn minn gafst upp á blogginu. Ég held hann sé búinn að gleyma lykilorðinu inn á síðuna... hehehehe
<< Home