17 maí, 2006

Miðvikudagur

Það væri nú ekki mikið fútt í lífinu ef maður reyndi ekki að krydda upp á tilveruna annað slagið og prófa eitthvað nýtt. Með þetta að markmiði skellti ég mér á kvennalandsleik í handbolta í gærkvöldi. Ég verð alveg að viðurkenna að þetta var aðeins öðruvísi en að fara á leik í kallaboltanum. Við, það er ég, Ína systir og Myriam, mættum á mínútunni átta og samt voru svooo fáir áhorfendur. Sjónvarpsstöðvarnar mættu miklu seinna en við og mér þætti gaman að sjá hversu mikið var í rauninni tekið upp. Og sama dag var verið að auglýsa forsölu á Ísland - Svíþjóð sem fer fram um miðjan júní... kallaboltinn sko. Það er greinilegt að það er ekki mikið meira lagt upp úr konu handboltanum en konu fótboltanum...
Þetta var nú samt ekki það sem stóð upp úr í þessari ferð. Stelpurnar unnu með smá heppnispassa þar sem þær skoruðu sigurmarkið þegar leiktíminn var "nánast" runninn út en þær áttu það skilið þar sem þær voru búnar að vera skrefi á undan nánast allan leikinn. Það sem vakti þó mesta athygli mína (og það var ekki sérstaklega góð athygli...) var fullorðinn maður sem sat við hliðina á mér. Það er bara um tvennt að ræða með þennan mann. Annaðhvort á hann ekki þvottavél og þvær þar af leiðandi aldrei fötin sín, eða hann fer aldrei aldrei í bað. Lyktin var ólýsanleg. Ég gafst upp og varð að anda með munninum nánast allan tímann og var á endanum orðið svo illt í maganum að ég hélt ég hefði þetta ekki af. Var mikið að velta því fyrir mér þarna þar sem ég sat hvort maðurinn vissi hreinlega ekki af þessu eða hvernig á þessu gæti staðið. Var líka mikið að hugsa um að skipta um sæti en fannst það hálf vandræðalegt þar sem það voru nú tvö auð sæti á milli okkar. En ég get bara ekki lýst því hvernig var að sitja þarna og geta hreinlega ekki dregið andann eðlilega þar sem það er mér eðlislægt að nota nefið meira við öndun svona þegar ég er ekki í sundi eða sofandi. Verð því að segja að ég naut þess ekki alveg að skella mér í höllina þetta kvöldið.