Aftur í Köben
Sæl veriði.
Jæja, þá erum við komin aftur til Köben eftir afar fínt páska"frí" á Íslandi. Það markverðasta sem gerðist í páskafríinu var að sjálfsögðu ferming litlu systur. Haldin var heljarinnar veisla á Norðurvangi og var fullt hús af frændfólki og vinum. Afar skemmtilegt. Fermingarbarnið, ef barn skal kalla, var held ég mjög lukkuleg með þetta allt saman.
Annars voru öll kvöld og dagar upppantaðir og náðum við alls ekki að hitta alla þá sem við vildum og ætluðum okkur að gera í þessari ferð. Ég verð því að standa mína pligt í sumar þegar ég mæti aftur á klakann og hitta alla sem við misstum af í þessum túr.
Það sem stóð upp úr hjá mér í þessum túr, fyrir utan náttúrulega að hitta fjölskylduna, var flugferð sem Einar Aron vinur minn bauð mér í á föstudaginn langa. Hann er held ég búinn að bjóða mér einu sinni á ári í næstum 10 ár í flugferð með sér, eða allar götur síðan hann fékk einkaflugmannsprófið, og ég hef alltaf hætt við á síðustu stundu (s.s. ekki þorað).
Í þetta skiptið skellti ég mér með honum (væntanlega mest Eyju að þakka þar sem hún sagðist ætla að fara ef ég myndi ekki fara) og í dag sé ég ekki eftir því. Þetta var mjög skemmtileg lífsreynsla og veðrið var alveg frábært. Þó verð ég að ég viðurkenna fúslega að ég var frekar smeykur á stundum þegar teknar voru frekar krappar beygjur (ég vil meina 60° beygjur, en ég held þær hafi nú ekki verið svo krappar). Ælupokinn var með í för en ég hélt í mér og brúkaði hann ekki....maður getur ekki farið að kasta upp í klefa sem rétt rúmar 2 menn!!
Fyrst þegar ég sá vélina sem við ætluðum að fljúga hélt ég að Einar væri að grínast. Ég hef held ég aldrei séð svona litla flugvél áður og var svona á báðum áttum að hætta við þetta allt saman. En ég þrjóskaðist við...sem betur fer.
Það voru teknar 4 snertilendingar á Keflavíkurflugvelli þar sem við lentum meðal annars á eftir Boeing 787 þotu, nokkrar dýfur yfir sumarbústað foreldra Einars við Apavatn og svo almennt útsýnisflug.
Heimahöfn nálgast.........Reykjavík í augsýn!
Fyrir áhugasama er hægt að sjá fleiri myndir úr túrnum með því að smella á þennan link .
Eins og glöggir lesendur sjá er ég s.s. búinn að útbúa aðgang að flickr.com fyrir okkur og kem ég til með að henda slatta af myndum þar inn, t.d. frá Róm sem margir hafa beðið spenntir eftir (að minnsta kosti þessar örfáu hræður sem commenta hjá okkur).
Þessa stundina er ég s.s. að því að græja allar 800 myndirnar sem teknar voru í Róm svo að hægt sé að henda þeim á veraldarvefinn. Áætluð verklok eru í byrjun apríl 2008........en engar dagsektir hafa verið settar á verkið.
kv. Óli G
<< Home