28 maí, 2008

Upptekið fólk í Danmörkinni

Sæl veriði..
Það hefur aldeilis margt gerst síðustu daga hjá okkur skötuhjúum. Við héldum að sjálfsögðu Eurovision-partý eins og lög gera ráð fyrir á laugardagskvöldinu og mættu Maja og Hildur, vinkona Maju, hingað til okkar í mikla átveislu. Við höfðum mismunandi skoðanir á lögunum en öll vorum við sammála um að spá Úkraínu sigri, Rússinn var ekki nálægt efstu sætunum í okkar spám.
Á mánudaginn skellti ég mér svo í eins og eitt próf í DTU....4 tíma skriflegt próf um GMP sem var alveg þrælskemmtilegt. Þar sem ég var svo duglegur í prófinu (reyndar ekki búinn að fá út úr því) skellti ég mér svo í golf í dag ásamt Jóni Ragnari, Hödda og Daða úr stórklúbbnum Ísborgu. Það var mjög gott veður, sólskin og í kringum 20°C. Hins vegar var töluverður vindur, eða hið svokallaða Leirulogn (as in Leiran í Reykjanesbæ) sem gerði okkur svolítið erfiðara fyrir. Ég stóð mig nú samt sem áður ágætlega og náði að lækka forgjöfina mína niður í 20,6. Allt að gerast í golfinu.

Næstu daga verður svo aldeilis mikið að gerast. Á morgun förum við að hjálpa dönskum vinum okkar að flytja og tekur það væntanlega allan daginn.

Á föstudaginn mætir svo pabbi og Guðni ásamt ömmu og systkinum pabba í helgar-/afslöppunar-/skemmtiferð. Það verður margt brallað skemmtilegt um helgina og ekki verra að það er spáð gríðarlega flottu veðri, sól og allt upp í 28°C.

Á sunnudaginn fer síðan Eyja upp í flugvél og verður þar í svona ca. 16 tíma. Hún ætlar að skella sér til Fjólu í San Fransisco og verður þar í um vikutíma. Planið hjá þeim er að ná að slaka á og versla (væntanlega) og mála bæinn rauðan eins og þeim er einum lagið.

Hér má sjá sýnishorn af San Fran þar sem þær Eyja og Fjóla verða að þeysast um á bílaleigubílnum.
Á mánudeginum fara svo amma og systkini hans pabba aftur á Klakann, væntanlega kaffibrún eftir sólina í Köben. Pabbi og Guðni ætla að vera svolítið lengur hér í Danmörkinni þar sem planið er að byrja golfseasonið fyrir alvöru á þriðjudeginn. Við ætlum að reyna að spila töluvert mikið golf og erum meira að segja búnir að panta okkur 3 daga "miniferie" á Countrygolfclub á Jótlandi, nánar tiltekið við Álaborg. Þangað förum við á miðvikudeginum.

Hér má sjá eina af holunum á öðrum vellinum, en 2 átján holu golfvellir eru í boði á svæðinu :)

Sem sagt skemmtilegir tímar framundan hjá okkur skötuhjúum og því verður varla mikill tími fyrir blogg fyrr en einhvern tímann í Júní :)

Með kveðju úr sumarveðrinu á Danmörku,

Óli