Aftur í Danmörku
Já, nú er fyrstu skólaviku eftir efterårsferie lokið. Og hún gekk nú bara að mestu leyti stóráfallalaust. Ég hef samt ekki verið eins dugleg að læra og ég ætlaði svo helgin verður bara tekin að mestu leyti í lærdóm. Ástæða þess að lærdómurinn hefur farið fyrir lítið er að mér var boðið í afmæli til Mariu frænku í gærkvöldi. Því fór miðvikudagurinn eftir skóla að mestu leyti í að þræða Strikið í leit að afmælisgjöf. Ég endaði að sjálfsögðu í H&M en á þessu ferðalagi mínu fann ég kínaskó á 69 kr en ég er að gera verðsamanburð á þeim!! Í gærkvöldi fékk ég síðan voða góðan mat og tertu í eftirmat sem alveg bjargaði því sem bjargað verður en aftur fór lærdómurinn fyrir lítið;o) Í dag ætlaði ég svo að vera ýkt dugleg en steinsofnaði og ætlaði aldrei að vakna. Er nefnilega búin að fara full seint að sofa og vakna svo full snemma alla vikuna!! Dagurinn í dag endaði síðan úti að borða með Ragnheiði, mömmu hennar, pabba, Hirti og svo vinkonu mömmu hennar. Við fórum á Mamma Rosa við strikið og ég borðaði þessa líka fínu mexíkósku pönnuköku með kjúkling. Á leiðinni heim komum við svo við og skoðuðum Vor Frue Kirke, þar sem krónprinsinn giftist henni Mary í vor. Hún kom mér virkilega á óvart, þetta er rosalega falleg kirkja. Er nefnilega búin að labba nokkrum sinnum framhjá henni og fannst húsið aldrei nógu fínt. En að innan svíkur hún engan. Og svo voru nokkrar myndir úr brúðkaupinu og undirbúningi þess. Meðal þess sem gert var í undirbúningnum var að þvo öll líkneskin og pússa og var ein mynd þar sem var verið að pússa tærnar á einum þeirra. Það var sko öllu skartað í þessu ævintýri. Annars er það að frétta af konungsfjölskyldunni að Alexandra skellti sér í frí til Grikklands held ég með litlu prinsana tvo og Mary þurfti að fara í gallsteinaaðgerð og má því ekki fara á hestbak á næstunni!!!
En nóg um eitthvað sem kannski skiptir ekki miklu máli fyrir mitt líf...Ég er öll að koma til og er farið að líka mun betur hérna megin við hafið. Svo á Óli núna þrjár miða til Danmerkur og ég einn miða til Íslands á næstu 5 mánuðum auk þess sem Ína, Rúnar, mamma og pabbi eiga líka öll miða! Svo maður þarf ekki að kvíða því að manni leiðist þar sem einhvern tímann verður maður að læra!!! Seinni tíma vandamál kannski, ekki satt??
<< Home