02 október, 2004

Myndir, myndir

Ég er búin að bæta við tveimur myndaalbúmum á heimasíðuna. Annað settið eru örfáar myndir úr Tívolí. Við Ragnheiður skelltum okkur í Tívolí síðasta opnunardaginn og hlustuðum á DAD, eða hvað sem bandið heitir. Það var smá myrkur, og við vorum svolítið langt í burtu. En ef viljinn er fyrir hendi þá er hægt að sjá skjáinn sem var við hliðina á sviðinu. Fólk skemmti sér alveg ágætlega, ég þekkti náttúrulega ekki eitt lag svo það var lige meget!!
Hitt settið er frá því í gærkvöldi. Októberfest í DTU hefst víst alltaf á kerruhlaupi í kringum skólann og felst það í því að klæða sig upp, stela innkaupakerrum úr einum af stórmörkuðunum og fylla þær af bjór. Svo er lagt af stað og það þarf að sjálfsögðu að grilla og borða pylsur á leiðinni, auk þess sem drekka þarf upp allar birgðirnar. Þetta var mjög skemmtilegt, sérstaklega til að byrja með, en þegar það voru liðnir tveir tímar og orðið ógeðslega kallt þá gafst ég upp og tók 150S heim. Upphaflega planið var samt að hitta Einar og Einar á Oktoberfest en það var opið til miðnættis í Field's og það var bara hreinlega of freistandi að skella sér þangað með Ragnheiði!! Ég er alltaf meiri áhugamanneskja um skemmtilegar búðir en bjórdrykkju. Samdi bara við strákana og á inni hjá þeim partýfíling einhvern tímann við tækifæri. Við Ragnheiður kemdum síðan Field's eins og okkur einum er lagið og ég keypti mér bleikan bol og bleika eyrnalokka!! Og það kostaði minna en maturinn sem ég keypti mér. Annars þá lækkar verðið á pítum um 5 kr. danskar frá stue sal og upp á anden sal. Bara svo þið vitið það næst þegar þið eigið leið um Field's. Sá alveg vangefið flotta úlpu. En hún kostar meira en helminginn af mánaðarleigunni svo það verður bara að gleyma því smátt og smátt.
Ég sit núna heima og klukkan að verða hálf ellefu á laugardagskvöldi. Ragnheiður er í partýi sem ég nennti engan veginn með í. Var miklu meira til í að vera heima og fara snemma að sofa. Þekki líka engann í partýinu og þar tala allir dönsku!! Ég þori aldrei að tala dönsku ef það heyrir einhver Íslendingur í mér sem ég þekki... Er líka að æfa mig í dönsku nákvæmlega þessa stundina þar sem ég er að horfa á Olsenbandið í sjónvarpinu! Stefni samt á að fara á dönskutalinámskeið við fyrsta tækifæri. Þýðir ekkert að vera svona ótalandi endalaust! Héðan er annars það að frétta að ég kem heim eftir 5-6 daga eftir því hvernig talið er. Hlakka mikið til. Þarf bara að fara í verklegt í einu fagi og skila einu verkefni og ganga frá öðru áður en að því kemur. Það er nógur tími til þess svo ég er að spá í að fara bara að skríða undir sæng og teppi í náttfötum og sokkum, lesa smávegis og fara svo að sofa. Langar að vísu svo mikið í nammi að ég er að springa. Held samt að ég láti það ekki eftir mér að fara í sjoppuna á horninu, hef ekki gott af meira nammi í bili. Það er nefnilega búið að vera undirstaðan í allri fæðu síðan ég flutti hingað...