19 febrúar, 2007

Kengúrur og önnur pokadýr



Viðburðarík helgi að baki hér í Danaveldi. Frú Ína og Herra Rúnar eru nú í stálfuglinum á heimleið eftir "shop-'till-you-drop" helgi þar sem H&M var misnotuð ásamt fleiri sérvöldum búðum. Við Rúnar erum núna þekktir í Köben sem "pokadýrin" þar sem það sást iðulega til okkar (en þó ekki í okkur) með mannhæðaháa pokastæðu, yfirleitt dauðuppgefnir á bekk á meðan stúlkurnar þeystust á milli búða.

Við gerðum nú samt ýmislegt annað en að versla, fórum til að mynda í Zoologiske Have í gær og þar rættist gamall draumur minn, því undirritaður er núna stoltur eigandi á árskorti í dýragarðinn. Þarna umbreytast hörðustu menn í lítil börn við það eitt að sjá öll þessi skemmtilegu dýr leika sér. Myndavélin fékk líka að finna fyrir því þann daginn þar sem skotið var stíft á saklausu dýrin. Myndir koma kannski síðar ef litla sys man eftir að kippa með sér Photoshop ;)

Annars horfðum við ekki bara á saklausu dýrin...við gúffuðum þau líka í okkur. Á laugardeginum átti Herra Rúnar afmæli og fékk hann að velja hvað yrði borðað um kvöldið. Hann stakk upp á staðnum Reef And Beef við Ráðhústorgið, ástralskur veitingastaður með ýmsa skringilega og skemmtilega rétti. Við pöntuðum okkur öll svona tilboðsmatseðla sem samanstóð af kengúrum, krókódíl og örlítið minna exótískum mat; reyktum laxi. Bragðaðist þetta allt saman ótrúlega vel og kengúran var hrikalega meyr og góð. Krókódíllinn kom einnig mjög á óvart...svipar svolítið til vel kryddaðs kjúklings.

Skemmtileg helgi að baki og nú hefst alvaran, vinna fyrir mig og læra fyrir Eyju. Eigum þó von á góðum gestum strax á fimmtudaginn þegar Sigga litla systir mín mætir á svæðið og með hálfatvinnumanninn Magnús Inga upp á arminn. Planið verður útbúið síðar.

Hilsen,

Óli