05 október, 2007

Tónlist og fótbolti

Jæja, ætli það sé ekki best að ég reyni að blogga eitthvað líka, svo að Eyja sé ein um þetta.

Það er markverðast í fréttum að síðastliðið miðvikudagskvöld skelltum við skötuhjú okkur á tónleika með Pétri Ben í Lille Vega. Áður en haldið var á tónleikana fórum við í "fyrirpartý" til Maju fyrrum starfsmann Actavis IS, núverandi starfsmann Actavis DK. Boðið var upp á dýrindis kjúklingasalat og meððí...afskaplega ljúffengt. Með í för voru Elsa Steinunn (fyrrum Actavis skvísa) og Karólína (sem tengist Actavis ekki neitt). Ég var s.s. eini haninn í hænsnahúsinu....gaman af því.

Tónleikarnir voru alveg hreint magnaðir. Pétur Ben ávallt góður og ekki skemmdi fyrir að Sigtryggur Baldursson (a.k.a. Bogomil Font) spilaði á trommur með Pétri Ben og Bogomil sá um skemmtiatriðin á meðan Pétur var að skipta um strengi í gítarnum. Að auki var einstaklega skrítinn, óþekktur (a.m.k. fyrir mína parta) bassaleikari, sem leit út eins og kjötbolla á 2 tannstönglum.....held hann hafi farið í gallabuxurnar svona um 1980 og aldrei farið úr þeim síðan....þrengri buxur hef ég aldrei séð!!

Ólöf Arnalds sá um að hita upp fyrir Pétur og stóð hún sig með stakri prýði. Afskaplega sérstök rödd en flott engu að síður.

Eina sem vantaði uppá að tónleikarnir hefðu fengið 5 diska af 5 mögulegum var sú staðreynd að það voru einungis sæti fyrir brot af tónleikagestum og því þurftu þeir sem mættu svona frekar í seinna fallinu (og við s.s. í þeim hópi) annað hvort að standa eða hreinlega að sitja á gólfinu. Nú, og þar sem Ólöf spilar kannski ekki mestu stuðtónlistina í bransanum settust allir á gólfið um leið og komið var inn.

Ég er hins vegar þeim eiginleikum gæddur (ef eiginleika skyldi kalla) að ég get með mjög illu móti setið á gólfi án bakstuðnings í lengri tíma en 10 sekúndur áður en maður stirðnar upp og fær náladofa. Það er jafnvel spurning um að fara bráðum að teygja á...þannig kemst maður allavegana í sokkana sómasamlega á morgnana!.

Tónleikarnir fá því 4 af 5 mögulegum diskum, félagsskapurinn fær 5 af 5.


Í gær fór ég hins vegar með 3 félögum úr stórklúbbnum Isborg Boldklub að sjá "Byens stolthed" FCK taka á móti Lens í Uefa Bikarnum. Þetta var alveg mögnuð upplifun fyrir mig þar sem þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á svona stóran fótboltaleik með svona mikilli stemmningu. Áhorfendur voru 24 þús, þar af um 23.900 stk sem studdu heimaliðið.
FCK vann glæstan sigur á Lens í framlengdum leik, 2-1, þar sem Jesper Gronkjær skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 115 mín. Alveg gríðarlega spennandi leikur.

Við "sátum" í fremstu röð í Fona stúkunni og það ringdi hressilega á okkur allan tímann....en það kom ekki að sök því við skemmtum okkur konunglega. Læt fylgja hér eina mynd sem ég tók (algjörlega ekki í fókus) áður en batteríið í myndavélinni kláraðist.

Það lítur út eins og það hafi ekki verið neinir áhorfendur á myndinni en það var nú ekki þannig. Ef vel er að gáð má sjá glitta í stuðningsmenn Lens sem voru neðst í hægra horninu í stúkunni bak við markið. Það varð s.s. að hafa töluvert pláss í kringum áhorfendur Lens...

Jæja...þetta er komið gott......

Hilsen,

Óli