29 maí, 2005

(Ekki) Fréttir frá Fróni

Afsakið strjál blogg frá mér.....maður er bara svo hrikalega busy í að gera ekki neitt að maður má ekki vera að því að blogga.
Já, það hefur talsvert á daga mína drifið síðan ég reit síðast..... mest þó vinnu-/fótboltatengt. Mánudaginn síðasta spiluðum við okkar fyrsta leik í stórklúbbnum Metró. Spiluðum við þar við FC Bundes (að mig minnir) og rétt töpuðum við 4-2. Fyrri hálfleikur var afleitur, enda var hann hugsaður til þess að slípa saman leikmannahópinn. Síðari hálfleikur var töluvert betri. Allt uppáleið miðað við fyrri hálfleik.
Hinu virku dagana var maður bara í almennu letikasti, og nennti ekki að gera neitt eftir vinnu.
Síðasta föstudag tókum við feðgar þátt í golfmóti Fjarhitunar á Kiðjabergsvelli. Stóðum við okkur með stakri prýði og röðuðum við bræðurnir okkur í efstu 2 sætin (ásamt okkar meðspilurum). Ég að sjálfsögðu hirti dolluna sem var í boði, en þar sem ég er víst ekki Fjarhitunarstarfsmaður þarf gamli faðir minn að geyma hana á skrifstofunni sinni. Menn voru samt almennt á því að pabbi hafi aldeilis ætlað að tryggja sér dolluna því að hann var með 4 lið í keppninni, þ.e.a.s. mitt lið, guðna lið, magga lið og náttúrulega pabba lið. En burtséð frá því, þá vann ég dolluna.
Laugardagurinn fór að mestu í tiltekt og var íbúðin þrifin hátt og lágt, en þó aðallega lágt. Hún Íris veitti mér dýrmæta aðstoð í baráttunni við rykmaurana og stóð hún sig með stakri prýði. Takk Íris.
Gærkvöldið var svo HRIKALEGA gott. Fórum við í stjórn starfsmannafélagsins út að borða á Skólabrú. Ákváðum við að fara í svokallaða óvissuferð þar sem kokkarnir velja allt ofan í okkur, og að sjálfsögðu var ótæpilega veitt af söngvatninu. Hófst ferðin á sniglum ásamt einhverju skrauti í abetæser. Þetta var í fyrsta, og líklega síðasta skipti sem ég smakka snigil. Var ekki alveg að fíla þetta.
Í forrétt var boðið upp á smjörsteikta humarhala ásamt krabba og verð ég að viðurkenna að það var ótrúlega gott. Hef aldrei verið mikill humarmaður, en þetta var hins vegar rosalega gott.
Í millirétt var svo boðið upp á túnfisksteik. Það hef ég heldur aldrei smakkað og tippa ég það að þetta hafi einnig verið fyrsta og síðasta skipti sem ég smakka það. Maður fann alveg sjóbragðið magnast upp í mér. Var ekki alveg nógu hrifinn.
Í aðalrétt var boðið upp á appelsínugljáðar andabringur. Ok, það var alveg svakalega gott og ekki skemmdi að maður fékk næstum 2 skammta. Ásdís ekki alveg að ráða við þetta allt saman. Ég reyndar sleppti öllu þessu grænmetisskrauti sem var á disknum...Villi vildi æstur fá það enda er hann í aðhaldi.
Í eftirrétt var svo súkkulaðikaka ásamt jarðarberjasorbet. Helvíti gott, og allir mjög saddir eftir þessa óvissuferð.
Eftir þetta var kíkt upp á barinn þar sem við fengum okkur kaffi og koníak (sem vildu) og síðan var farið á Rauðlækinn í smá teiti. Þar sátum við á sumbli í rúma 2 tíma og kíktum þá í bæinn. Hann var smekkfullur af nýstúdentum þannig að maður entist ekki mjög lengi þar. Klukkan 4 var maður mættur í bólið.

Í dag var lífinu tekið með ró framan af degi, en um kvöldmat æstust leikar til muna þar sem stórklúbburinn Metró átti sinn annan leik í deildinni. Áttum við alveg ágætisleik og unnum við 4-1. Alltaf skemmtilegt að vinna.

En jæja...ég held að þetta sé komið gott.....efast um að nokkur hafi nennt að lesa svona langt niður....

Bið að heilsa,
kv. Óli