26 júlí, 2004

Sælir!!

Hvað er svo að frétta í dag? Af mér er það að frétta að ég er búin að vera alein í kotinu síðan á föstudag. Óli er í veiði heima hjá mér, nánast, og ég bara ein í Reykjavík. Ég hef nú samt alveg fundið mér eitthvað að gera, sko. Á föstudaginn eftir vinnu vorum við Miriam búnar að ákveða að fara í sund. Og hvað haldiði? Það rigndi gjörsamlega eldi og brennisteini. Þvílíka rigningu hef ég sjaldan upplifað á gamla góða Íslandi. Það voru heilir 2 í sturtu í Árbæjarlauginni og annað eins fámenni hef ég nú bara ekki upplifað á þeim slóðum! En sundferðin var fín og eftir hana fórum við heim, elduðum okkur þetta líka fína pasta og horfðum á tvær stelpumyndir. Laugardagurinn var svo tekinn með trompi og gengið á Esjuna. Jahá, ég, Miriam og Fjóla fórum sko alla leið upp á topp. Vorum ekkert smá ánægðar með okkur, héldum að vísu á tímabili að við kæmum aldrei niður aftur þar sem lofthræðslan náði tökum á okkur þegar við þurftum að klifra aðeins til þess að komast alla leið upp. En eftir smávegis hlé á toppnum ákváðum við að við yrðum að gjöra svo vel að komast niður af sjálfsdáðum þar sem á eftir okkur kom heill hópur af fólki með þrjú börn með sér. Yngsta barnið var sko ekki meira en fimm ára gamalt. Hálf skammarlegt að sitja fastur upp á Esju þegar einhver baby fara þetta eins og ekkert sé!! Sunnudagurinn fór svo í að eyða peningum í Kolaportinu og Kringlunni. Ótrúlegt hvað maður er alltaf góður í að eyða peningum sem maður á ekki!
Annars þá hringdi Óli í mig áðan og tilkynnti mér að hann væri búinn að veiða lax. Hann var ekkert smá ánægður og er ég alveg yfir mig stolt af stráknum. Held hann ætli að biðja pabba að grafa hann svo það verður nú veisla hjá okkur við tækifæri!
En höfum það ekki lengra í bili, verð nefnilega að reyna að vinna aðeins fyrir kaupinu mínu...