21 júlí, 2004

Þvílík þreyta

Almáttugur minn einasti. Þetta er á leiðinni að verða einn þreyttasti dagur sem sögur fara af. Það var nefnilega fjölskylduboð hjá okkur í gærkvöldi. Systa, Gaui, Halli, Yalda, Maja, Snorri, amma, Sigga og Maggi mættu á svæðið og borðuðu hjá okkur vöfflur og gulrótaköku. Það var alveg þrusustuð og mjög gaman að fá þau öll sömul í heimsókn. Ekki skemmdi það heldur fyrir að þau færðu okkur líka svo svakalega fínar innflutningsgjafir og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. (Þeir sem hafa áhuga á að vita hvað það var sem við fengum verða bara að koma í heimsókn til að skoða!!) Síðustu gestirnir voru ekki að fara heim fyrr en klukkan 1 í nótt og er þreytan þess vegna svolítið farin að segja til sín og klukkan ekki nema korter í 9. Góð byrjun! Annars þá fékk ég hálsbólgu vinstra megin í gær og er enn ekki alveg nógu góð. Átti einn hálsmola sem ég ætlaði að borða áðan. Hvað haldiði, helvítið hrökk ofan í mig og gerir nákvæmlega ekkert gagn fastur í hálsinum á mér! Annars þá hófst dagurinn minn á því að ég gekk um alla íbúð og reif batteríin úr reykskynjurunum. Þegar ég var búin að hreinsa úr þeim öllum, að ég hélt, þá var enn einhvers staðar einn sem gelti á mig í alla nótt. Ætlaði aldrei að finna helvítið og þegar ég var um það bil að gefast upp ákvað ég að kíkja inn í geymslu. Haldiði ekki að þar hafi helvítið setið og hlegið af mér. Reif úr honum batteríið svo hann mun ekki hlæja alveg á næstunni!!!
Annars þá er hún Dagmar frænka mín 8 ára gömul í dag. Stefnan er því tekin á pylsupartý eftir vinnu að Otrateig 18. Afmælisgjöfin reyndist þrautin þyngri, en eftir þó nokkrar svaðilfarir og skil og fleira bjargaðist þetta nú allt saman. Ég verð því að þrauka í vinnunni í dag þrátt fyrir hálsbólgu vinstra megin og hálsmola sem situr fastur í hálsinum á mér til að missa ekki af pylsupartýi ársins;) Til hamingju með daginn Dagmar...