23 nóvember, 2005

Tilraun

Af því ég lærði svo margt um svona tilraunavinnu og hvernig á og ekki á að haga sér við slíka vinnu í sumar er ég búin að taka upp þráðinn að nýju. Að þessu sinni felst rannsóknin mín í því að athuga hvort það er þreyta sem gerir það að maður getur ekki vakað í tímum eða hvort það er að fyrirlesararnir eru oft á tíðum svo hrútleiðinlegir að maður hreinlega getur ekki gert sér það að vaka heilan fyrirlestur. Þetta hófst allt á mánudaginn og felst í því að ég stefni á að fara að sofa fyrir miðnætti alla þessa viku og jafnvel næstu ef ekki verður búið að afla nægra gagna. Viðmiðunarhóparnir mínir eru tvær vinkonur mínar sem hvorugar fara nokkru sinni í rúmið fyrir miðnætti og önnur þarf meira að segja að vakna kl. 5:45 til að vera mætt í DTU kl. 8 á morgnana. Hef samt ekki sagt þeim frá því að þær séu hluti af þessari merku rannsókn, en það er seinni tíma vandamál. Eftir tveggja daga harða vinnu standa leikar þannig að það eru fyrirlesararnir sem hafa betur. Ég dó næstum í tíma í dag, sem gæti þó stafað af því að fyrirlesarinn var alveg einstaklega leiðinlegur og ekki alveg að gera sig. Þetta er sem sagt alveg æsispennandi og hver veit nema að ég skrifi eins og eina vísindagrein þegar búið verður að vinna úr öllum gögnum...
Annars er ég búin að komast að því að bóla inni í eyranu er alveg hryllilega pirrandi og að ég get ekki hætt að pota í hana þó það sé geggjað vont.