05 mars, 2007

Stríðsástand

... í gamla hverfinu mínu. Það eru sko nokkuð margir sem eru að hrósa happi yfir því þessa dagana að ég sé flutt úr gettóinu og ég er nú bara nokkuð ánægð með það líka. Það er búið að brenna held ég bara nánast allt sem hægt er að brenna niður á Nörrebrogade og samt er allt í háalofti þar enn. Og ekki nóg með að lögreglumenn úr öllum umdæmum Danmerkur séu staddir á Nörrebrogade þessa stundina heldur er búið að kalla til liðsauka frá Svíþjóð. Segið svo að ekkert gerist í Köben...
Við vorum annars í afmæli niður á Nörrebro á laugardagskvöldið og upp úr miðnætti heyrist í einum stráknum: nu er der krig på Nörrebrogade... þetta voru sem sagt nýjustu upplýsingar frá vini hans sem bjó við þessa mjög svo umtöluðu götu... Ein vinkona mín úr skólanum sem var í afmælinu þurfti að krossa götuna ógurlegu til að komast heim og hún kíkti vandlega fyrir öll horn áður en hún þorði yfir. Og lögregluhópurinn var ekki í nema svona 30 m fjarlægð frá henni en óróaseggirnir voru svo hinum megin við löggurnar svo hún komst heilu og höldnu heim... Við Óli fórum hins vegar bara í hina áttina og urðum ekki vör við neitt frekar en fyrri daginn.
Í dag var síðan skóli niður á Nörrebro og það sem ég tók helst eftir er að ÖLL strætóskýli í hverfinu, eða alla vegana öll sem ég hjólaði framhjá og þau eru nokkur, þau eru í þúsund molum minnst. Svo það verður nóg að gera hjá sópurunum þegar/ef ró kemst á svæðið...
Af öðrum málum er hins vegar bara lítið og gott að frétta. Ólinn er samt búinn að vera veikur í dag sem er ómögulegt. Vonandi fer það að batna þar sem við fáum eina heimsókn í viðbót um helgina. Þá ætla nefnilega Elísabet og Helga að heiðra okkur með nærveru sinni og eins gott að bakarinn á heimilinu verði orðinn hress!! Hjá mér er nóg að gera. Á til dæmis eftir góðan bunka af blaðsíðum fyrir morgundaginn plús það að próf og skil á verklegu nálgast óðum... ætti kannski frekar að snúa mér að náminu en að hanga í símanum og blogga eitthvað bull... Heyrumst síðar þegar ég verð farin að ná andanum ;o)