25 ára!!!
Já, þá er að byrja að komast reynsla á það hvernig það er að vera 25 ára. Og þetta hefur byrjað svolítið brösulega. Lenti í popupgluggaárás á laugardagskvöldið og er búin að vera í stanslausri baráttu síðan þá. Og skapið er búið að vera eftir því, pirringur í ganginum.... Ekki góð byrjun, en vonandi er fall faraheill í þessu eins og öðru. Annars er ég búin að fá fullt af fallegum hlutum í afmælisgjöf, þó svo besta afmælisgjöfin birtist ekki í DK fyrr en á hádegi á miðvikudaginn. Ég hlakka ekkert smá til að fá Óla, get ekki beðið en verð samt eiginlega að læra samfellt þangað til, til að redda málunum. Kemur í ljós hvernig það fer... hmmm. Annars þá var afi minn svo indæll að benda mér á það á laugardaginn að ég væri orðin hálffimmtug. Það má auðvitað líta á þetta frá öllum hliðum, ég segi það ekki. En ég varð fyrir svolitlu áfalli, verð að viðurkenna það. Annars er bara lítið að frétta. Var hjá Ásu í Odense frá miðvikudagskvöldi fram á laugardagsmorgun í síðustu viku að hlýða henni yfir anatomiu og pæla aðeins í farmakologi. Hún er að fara í hressandi próf eftir 1 og 1/2 sólarhring og eins gott að krossleggja alla putta og allar tær fyrir hana. En ég átti sem sagt afmæli á laugardaginn og þá vöktu Ása, Louise og Elisabeth (danskar stelpur sem hún býr með) mig með afmælissöngnum og voru búnar að fara í bakarí og allt. Kannski rétt að geta þess að þær eru allar í prófum svo ég var vakin klukkan 8 og afmælisbarnið var í þreyttari kantinum. Svo fór ég heim og bakaði súkkulaðiköku og borðaði svo yfir mig af súkkulaðiköku með Ragnheiði, Möggu, Ninu og Ragnhild. Talaði við alla familíuna eins og hún lagði sig og meira að segja við ömmu og afa á skype og webcam. Þau eru svo mikil tækniundur, og það var alveg meiriháttar að sjá aðeins í þau! En núna er rúmlega kominn háttatími fyrir geðvonda. Adios....
<< Home