12 október, 2008

Danmörk var það heillin

Jæja gott fólk

Ætli það sé ekki úr vegi að skrifa nokkur orð hérna á bloggið. Ekki mikið aktivitet og allskostar óvíst að það breytist eitthvað.

Þannig er mál með vexti að við höfum ákveðið að hreiðra um okkur hérna í Danmörkinni í einhver ár í viðbót og höfum við, af því tilefni, bæði fengið vinnu hér í Baunalandi. Ég fór nú ekki langt, flutti mig yfir í Actavis Nordic, en Eyja fékk vinnu í Novo Nordisk. Ég er búinn með eina viku í nýju vinnunni og líkar bara ljómandi vel og verður spennandi að takast á við nýjungar...og náttúrulega dönskuna. Eyja byrjar hins vegar 1. des næstkomandi þegar hún verður búin að skila ritgerð og verja hana. Síðan er að sjálfsögðu stefnt á að halda upp á jólin á Íslandi, allavegana þetta árið.

Annars er stutt í næstu heimsóknir hingað á Dalstrikið. Þriðjudaginn 28. október næstkomandi koma systir mín Sigríður og tilvonandi mágur minn Maggi með lest frá Lübeck og verða hjá okkur í 2 nætur. Ekki leiðinlegt að fá þau í heimsókn, og sérstaklega þar sem ég treysti á að fá smá sýnishorn af hinu víðfræga marsipani Niederegger, sem framleitt er einmitt í Lübeck.

Stuttu eftir að Sigga og Maggi eru farin af landinu mæta Frú Borghildur og Rúnar til okkar og ætla að vera hér í nokkra daga, eða frá byrjun nóvember til ca. 9 eða 10. nóvember (er lélegur á dagsetningunum). Það verður án efa gert eitthvað sniðugt á þeim tíma, allavegana heimsótt H&M og við Rúnsi skellum okkur í fótbolta. S.s. mikið fjör á okkur :)

Ekki hafa fleiri bókað far hingað til okkar, en það er nú fljótlegt að breyta því.

Annars er Eyja bara að hamast í ritgerðinni og ég að hamast í að slappa af svona á sunnudags eftirmiðdegi. Kveðjum við ykkur því að sinni héðan af Dalstrikinu.

Med venlig hilsen,
Óli