25 september, 2005

Heimþrá

Það bregst bara ekki. Alltaf þegar ég vakna á sunnudagsmorgnum þá líður mér eins og Palla þegar hann var aleinn í heiminum og fæ geggjaða heimþrá. Ég veit ekki hvað ég hef oft vakið Óla á ókristilegum tíma á sunnudagsmorgni síðasta árið. Það er eins og á sunnudögum renni alltaf upp fyrir mér hvað ég er langt í burtu og alein og eikka. Kenni því oftast um að maður er á leiðinni út í eina vikuna enn í þessum blessaða skóla aleinn með sjálfum sér sem getur alveg verið pínu lónlí.
En nóg um það. Besti vinur minn þessa dagana er þyngdarhröðun jarðar. Þessi gamli félagi minn sá nefnilega um að losa stífluna í niðurfallinu á baðinu á föstudaginn. Ég get ekki sagt að það hafi verið sérstaklega ánægjulegt að gera þá uppgötvun að niðurfallið var gjörsamlega stíflað alls ber og með sápu í hárinu. Var samt að sjálfsögðu búin að gera mér grein fyrir að rennslið var eikka tregt og kanna aðstæður eins og sönnum verkfræðingi sæmir... En fannst svo grós það sem var í niðurfallinu að ég gat ekki sótt það... hmmm er meiri pempía en verkfræðingur, það er nokkuð ljóst!! Ákvað þess vegna að fara bara í sturtu með mjög litlu rennsli úr sturtuhausnum. Tókst sem sagt ekki betur en svo að allt stíflaðist endanlega. Ég sem sagt stóð þarna í engum fötum og var mikið að velta fyrir mér hvað gera skildi þegar bjargvætturinn mætti á svæðið og ég gat klárað sturtuna með rennsli í botni... hehehehe
Planið er svo að fara í tívolí í kvöld, síðasti opnunardagurinn þetta sumarið er nefnilega runninn upp. Ætla að kaupa mér risa ís og sjá Khasmir spila og syngja fram á rauða nótt áður en þessi ljóti mánudagur rennur upp einu sinni enn.

22 september, 2005

Heimilisleysi

eða ekki... Þangað til síðasta þriðjudag leit út fyrir að ég og Ragnheiður þyrftum að flytja út úr íbúðinni fyrir jól og enn sem komið var vorum við heimilislausar eftir jólafríið. En hann Tahi vinur okkar mætti eins og engill að sækja póst á þriðjudaginn og spurði hvort okkur langaði ekki að vera í íbúðinni svona aðeins 1-2 mánuði lengur. Váá hvað ég var fegin. Var farin að sjá fyrir mér að mæta til Köben 1. janúar 2006 og eiga hvergi heima. Já vinur, ég á að mæta í skólann 2. janúar kl. 9 svo ég átti ekkert val og á þess vegna flug til DK 1. jan. Er ekki sátt að þurfa að öllum líkindum að vera ekki hjá mömmu og pabba og Ínu og Gunnari um áramótin. Þetta verða pottþétt léleg áramót... En björtu hliðarnar, ég þarf ekki að búa í tjaldi í Köben.

Það hefur heldur ekki veitt af að líta á björtu hliðarnar á Rauðalæknum undanfarið. Kyndiklefinn er að gefa upp öndina, eða réttara sagt vatnslagnirnar í þessum ljóta klefa. Við erum að sjálfsögðu næstu nágrannar kyndiklefans og erum með rakaskemmdir í eins og einum hornskáp og einum vegg. Þetta leit samt út fyrir að vera verra á tímabili þegar píparinn hringdi í Óla og sagðist vera á leiðinni að brjóta upp eldhúsgólfið vegna leka. Það hefur þó skipst á með skyni og skúrum í þessu máli og ýmist hefur lekið lögn í gólfinu í eldhúsinu eða í veggnum. Þessir píparar áttu sem sagt í einhverjum erfiðleikum með sig og virtust ekki geta ákveðið sig hvar þessi blessaði leki væri. Óli er búinn að vera í beinu símasambandi við tryggingafélagið og píparana og verið eins og skopparakringla að hleypa hverjum píparanum og tryggingaeftirlitsmanninum inn heima hjá okkur á fætur öðrum. Endanleg niðurstaða fékkst svo að lokum í dag og eru verklegar framkvæmdir að hefjast í eldhúsinu á morgun. Þess vegna eru allir sem vettlingi geta valdið í þessum töluðu orðum í eldhúsinu heima hjá mér að pakka því inn í plast þar sem brjóta á gat á vegg í fyrramálið. Það verður því gat á eldhúsveggnum fram í næstu viku en þá mæta múrararnir á svæðið og þegar öllu þessu er lokið er að öllum líkindum næst á dagskrá að uppþvottavélinni verður kippt út úr innréttingunni og gert við hornskápinn. Váááá hvað ég er fegin að vera bara á kafi í skít í Danmörku núna...

Annars held ég að ég sé búin að finna hina einu og sönnu ástæðuna fyrir því af hverju Ólinn minn gafst upp á blogginu. Ég held hann sé búinn að gleyma lykilorðinu inn á síðuna... hehehehe

21 september, 2005

21. september

Mig langaði bara að segja til hamingju við hana mömmu mína. Hún á nefnilegast ammæli í dag.
Svo bara til hamingju elsku mamma, þú ert sko langbestasta mamma í öllum heiminum.
Eyja

19 september, 2005

ég veit...

Ég held ég viti af hverju Óli er búinn að segja upp í blogginu. Það er svo mikið að gera í sjónvarpsglápi hjá honum... Ef hann er ekki að horfa á enska boltann þá eru það bara allir raunveruleikaþættirnir á skjá einum. Svo það er sko ekki furða að hann hafi ekki tíma fyrir blogg. Efst á topptíulistanum er örugglega ameríkans next top módel, hann kann alla vegana alltaf nöfnin á öllum gellunum...
Annars þá er Íris bara að gera það gott í ædolinu. Kemur alla vegana einu sinni í tv-inu, sú gamla. Til lykke Íris.
Héðan er annars bara lítið að frétta, aðallega bara þreyta á kantinum. Góð helgi hjá Ásu tásu í Óðinsvéum liðin undir lok og alvara lífsins tekin við aftur. Var að senda inn umsókn um námslán til lín svona af því maður er í svo litlum mínus fyrir... Svo er það bara skýrsla dauðans sem þarf að klárast á morgun, verklegt á miðvikudag og föstudag og svo kemur aftur helgi. Svo styttist óðum í heimferð sem beðið er eftir í ofvæni...

15 september, 2005

Ce la vi...

já, nú held ég að ég geti skrifað undir samninginn lélegasti bloggari í geimi. Hef ekki verið að gera gott mót hérna undanfarið frekar en á fleiri vígstöðum. Lærdómurinn hefur til dæmis farið fyrir frekar lítið undanfarið vegna heimsókna.
Ég kom sem sagt til baka til DK 26. ágúst eins og áætlað var eftir stutt stopp í New York. Mér fannst þessi borg alveg meiriháttar og er ákveðin í að fara með Ólanum mínum þangað við tækifæri. Var að deyja úr heimþrá fyrstu vikuna og skólinn var að sjálfsögðu í ruglinu og er í ruglinu svo þetta er búið að vera góð byrjun á nýju skólaári. Það sem bjargaði mér var að rekast annað slagið á Svenna, Guðlaugu og Rakel og svo á Guðbjörg heima hérna rétt hjá mér. Við Guðbjörg erum búnar að skella okkur á menningarlegt rölt um Köben og sáum svo Red Eye í bíó á sunnudagskvöldið. Síðasta vika fór svo bara í túristahring eftir hring. Fyrst með Siffu systur pabba, Heiðu dóttur hennar, Snorra manninum hennar Heiðu og Styrmi Franz syni Heiðu og Snorra. Styrmir er bara 4 mánaða og ég var að passa hann fyrir utan búð á strikinu þegar Guðlaug og Svenni birtust. Þau trúðu því ekki þegar ég sagðist eiga hann. Skil ekkert í því... Um síðustu helgi voru svo Inga sem ég vann með í gamla daga heima á Víkinni og maðurinn hennar, hann Svavar, í menningarreisu í Köben. Ég fór með þau fram og aftur um borgina og gekk þau alveg upp að öxlum held ég. Þau verða örugglega fram að jólum að ná sér.
Annars er bara lítið að frétta hérna megin. Óli er held ég búinn að segja upp hjá mér í blogginu svo ég verð bara að reyna að standa mig í stykkinu án aðstoðar... hehe. Er á leiðinni til Óðinsvéa til Ásu tásu um helgina. Hlakka mikið til þar sem ég hef ekki séð hana síðan í vor einhvern tímann. Svo er ég á leiðinni til Íslands eftir langa útlegð... á flug frá Köben 12. október kl.19:45... Eins gott að ég nái því, á nefnilega að vera í prófi í síðustu tímunum þennan daginn...