29 nóvember, 2004

Ein helgi enn búin

Já, tíminn líður skrækkelig hratt þessa dagana. Ein helgi enn liðin og bara ein eftir að líða áður en prófin byrja... hressandi. Það þýðir samt að það er að koma jólafrí! Júhú!
Hef annars lítið gert annað undanfarið en læra, spila tölvuleiki, læra, horfa á friends, læra, horfa á jagten på drömme kvinden (bachelor) og læra! Hressandi. Fór samt með Möggu og Röggu að sjá Bridget um helgina. Það var mjög gaman, ég alla vegana skemmti mér konunglega. Alveg merkilegt hvað ég verð vandræðaleg þegar ég horfi á Bridget koma sér í öll þessi vandræðalegu situation. Á stundum bágt með að horfa á hana gera sig að fífli. En hvað um það. Það er komin nótt og ströng vika með skýrsluskilum fyrir höndum. Já, danska skýrslan er svona að skríða saman, þökk sé Dönunum í hópnum, ekki mér!!

24 nóvember, 2004

Aulalegasta móment EVER!!!

Já, það átti sér stað í dag. Ég rúllaði niður stigann í Panum og það var hlegið af mér. Húsvörðurinn kom hlaupandi á harða spani og baðst síðan afsökunar á að hafa ekki náð að grípa mig! Og þetta var ekkert venjulegt fall, neinei, ég datt svo hægt að það mætti halda að þetta hafi verið sýnt í slómó svo sem flestir yrðu vitni og gætu hlegið sem mest. Ég reyndi að sjálfsögðu að gera gott úr öllu saman og sagði húsverðinu að það væri í fína lagi með mig og hló svo vandræðalegum uppgerðarhlátri. Verst að þetta var lélegasti uppgerðarhlátur sem sögur fara af. Men, ég var svo hallærisleg. En þökkum guði og öðrum fyrir að það sá mig held ég enginn sem þekkti mig. Annars er þetta ekki í fyrsta skipti sem ég dett niður stiga í skólanum. Tók eitt svona gott fall í MA líka. Vonum bara að fall sé farar heill!!!
Annars átti ég alveg frábæra helgi. Óli, Ína og Rúnar lífguðu svo sannarlega upp á tilveruna. Systir mín sýndi hvað í sér býr og tvöfaldaði farangurinn á tveimur sólarhringum - geri aðrir betur. Orðið powershopping lýsir þessu líklega best. Já Ína, þú stóðst þig frábærlega. Get ekki séð að þetta met verði slegið í bráð. Vorum sem sagt í búðum á fim, fös og eitthvað á laugardag. Hittum Möggu hennar Ínu og Auja líka nokkrum sinnum. Þau eru ósköp næs og er stefnan að fara í stelpuferð á Bridget Jones við tækifæri!! Magga var mjög dugleg í að fylgja okkur eftir í næstum hverja einustu búð sem farið var í!! Borðuðum skyndibita og nammi í tonnavís, tókum tívolí með trompi og rauðum nefjum, upplifðum snjóhríð með stóru hagli og fleira og fleira. Held við Ína förum ekki aftur á Fisketorvet í bráð eftir að hafa borið á milli okkar þaðan út stærðar kassa. Og lentum svo í megasnjóhríðinni á leiðinni með hann heim. Alltaf hressandi!! Allir bara mjög sáttir eftir góða ferð held ég bara. Og bæ ðe vei þá hélt Kalli vinur Auja og sambýlingur hans og Möggu að við Ína værum tvíburar. Þetta er alltaf jafn skondið! Myndirnar frá þessari líka fínu helgi eru komnar á netið og finnast undir linknum hér til hliðar! Mæli sérstaklega með syrpunni af okkur systrum í tívolí. Við gjörsamlega áttum pleicið...
Annars þá eru skýrsluskil 2. des, próf í 5 tíma 10. des og einungis í 4 tíma 14. des. Svo er flugið heim í langþráð jólafrí um hádegi 15. des svo það eru ekki orðnar nema þrjár vikur í þetta! Hlakka mikið til að klára þessa törn og komast heim í matinn hennar mömmu. Hann er alltaf bestur í heimi. Hvað ætli maður þurfi að æfa sig lengi til þess að geta eldað jafn góðan mat og mamma sín?? Hmmm......

17 nóvember, 2004

Kraftaverk??!!!

Ég er búin að læra svoleiðis og læra undanfarna daga að ég er komin fram á föstudag í næstu viku. Shit, þetta hélt ég að væri ekki hægt...ég veit hreinlega ekkert hvað ég á af mér að gera. Er þess vegna búin að dunda mér aðeins og kom myndunum af íbúðinni hérna í Köben og frá Halloween í Óðinsvé á netið. Þær getiði sem sagt nálgast undir linknum myndir hér til hliðar. Þetta eru klassaverk sem enginn má missa af.....

16 nóvember, 2004

Óþolandi

Ég þoli ekki kennara sem standa sig ekki í starfi. Hvað er það að koma bara ekkert með lausnirnar á dæmunum sem voru sett fyrir fyrir svona eins og þremur vikum. Hvernig á ég að vita hvort ég skil þetta 100% þegar ég fæ lausnirnar ef ég fæ ekki lausnirnar. Mig vantar bara herslumuninn upp á þessi ljótu dæmi. BÖGGGGGGGGGGG!
Annars þá var Thomas ekki jafn vondur við mig og venjulega þegar var verið að fara í gegnum skýrsluskrif og svoleiðis mál í dag. Og ég er búin að lesa fyrir fim. og fös. og get bara hangið og gert ekki rass meðan opinbera heimsóknin stendur yfir. Ína fékk víst framlengingu á vegabréfið sitt svo nú er bara ekkert að vanbúnaði. Hlakka geðveikt til.
Sat annars á kaffihúsi í dágóða stund með Ástu og Gumma á sunnudaginn. Það var alveg rosalega gaman að hitta þau, hef ekki séð þau síðan einhvern tímann í sumar. Heimsóknin í haustfríinu komst ekki fyrir í þéttu dagskránni sem þá var í gangi!!
Annars þá heyrist örugglega lítið í mér fram yfir helgi, er að fá svo skemmtilega gesti að þá hangir maður sko ekkert á netinu í einhverju bulli!!

13 nóvember, 2004

Einu sinni enn komin helgi

Já, tíminn líður alveg ótrúlega hratt þessa dagana. Sem er svo sem allt í lagi því þá koma jólin svo fljótt. Annars er s-puttinn alveg bara að jafna sig svo það er fátt sem aftrar mér frá því að skrifa nokkrar línur. Ég er bara alveg að verða frísk, finn samt að ég er pínku slöpp og sef ennþá svolítið mikið en það er alveg ágætis tímaeyðsla, að sofa bara vel og lengi. Í gær fór ég í fyrstu vísindaferð vetrarins. Og það var alveg rosalega gaman. Landsbankinn bauð bara öllum stúdentum í Kaupmannahöfn og nágrenni í fínasta partý á Northatlantsbrygge sem er menningarmiðstöð Íslands, Færeyja og Grænlands. Ég komst á leiðarenda á endanum í mígandi rigningu með því að elta einhverja stráka sem töluðu íslensku, var ekki alveg að vita hvert ég ætti að fara, sko. Og í vísindaferðinni hitti ég Bjössa Sighvats og Þóru kærsutuna hans, Einar Leif, stelpurnar sem eru ári á eftir í verkfræðinni og ég man engan veginn hvað heita akkúrat núna, jú önnur heitir Sara og hin var líka með í síðasta fótboltanum í fyrra!! Svo voru Ísafold og Svanhildur þarna og Sunna Björg og vinkona hennar sem heitir Klara og bara alveg fullt af fólki. Svo þetta var bara alveg mjög skemmtilegt kvöld. Ég komst að því að strákarnir voru búnir að reyna að hafa samband nokkru sinnum eins og ég er búin að reyna að ná í þá en bara bæði ég og Einar Sigursteinn vorum búin að skipta um símanúmer svo við erum búin að vera að fara á mis í þrjár vikur núna eða mánuð eða eitthvað. En núna er búið að græja þetta og við ætlum svo að vera í sambandi!! Loksins!
Annars er stefnan í dag bara að læra aðeins, skreppa svo í smá bæjarferð, verð nefnilega að fá mér húfu, eyrun frusu nánast af í síðustu hjólaferð!! Já og svo er það bíó í kvöld. Ætla bara að vera dugleg í lærdómnum á morgun, það hlýtur að reddast! Annars þá skilst mér að Ásta og Gummi séu á svæðinu og hafi jafnvel ætlað að hafa samband, en það kemur bara í ljós!
Svo ég hef það bara rosalega gott núna, er líka að fá svo skemmtilega heimsókn um næstu helgi!!

11 nóvember, 2004

Slys...

já, þetta verður stutt í dag. Ég nefnilega skar mig á blaði og get eiginlega ekki notað s-puttann án þess að það sé hrikalega sárt! Vá, of mörg s í þessari setningu... Ætlaði bara að óska afmælisbarni dagsins innilega til hamingju með afmælið!! Já, það er þú Viktoría! Vonandi hefurðu það gott í dag og borðar eitthvað alveg hrikalega gott!!! Bestu kveðjur frá Köben - Eyja

10 nóvember, 2004

Annar í veikindum

Sumir myndu kannski segja fjórði í veikindum, en það er bara skilgreiningaratriði... Annars þá svaf ég nánast allan daginn í gær svo það gerðist nú ekki mikið merkilegt hjá mér. Ég náði samt að horfa á þrjá þætti af ørnen, einn þátt af friend's og einn af CSI. Geri aðrir betur. Svo er ég búin að vera að skoða royal brúðkaupið sem ég missti af vegna prófa í vor í bak og fyrir á netinu. Það er svo sem ágætt að verða bara lasinn annað slagið, ha. Ég var svo öll að koma til þegar ég vaknaði í morgun og þess vegna skellti ég mér bara í skólann. Eftir fjóra tíma í skólanum var ég hins vegar gjörsamlega að deyja. Án nokkurs gríns. Svo ég skellti mér í strætó og í búðina og keypti þrjá tegundir af súkkulaði og svo mjólk til að drekka með og svo heim. Ég blótaði töluvert að búa á fimmtuhæð í lyftulausu húsi í dag. Ætlaði hreinlega ekki að komast upp alla þessa stiga. Það var þess vegna bara borðað rúgbrauð með lifrarkæfu og svo farið að sofa. Og ég svaf að sjálfsögðu lengur en ég ætlaði mér. En nú er ég sem sagt að rembast við að laga minn hluta af þessari skýrslu fyrst þetta var ekki alveg rétt upp sett í fyrstu tilraun og þetta er bara alveg jafn hressandi og síðast. Mamma segir samt að ég eigi ekki að vera með áhyggjur af þessu, krónprinsessan hafi haft tvo einkakennara í heilt ár áður en hún fór að tala dönsku. Svo kannski kemur þetta allt saman með tímanum. Vonum það alla vegana. Annars þá held ég að ég hafi smitað Óla í gegnum skype eða msn því hann fór veikur heim úr vinnunni í dag. Nema þetta sé samúðarveiki mér til heiðurs. En hvað sem því líður þá þýðir ekkert annað en að fara að hrista þetta af sér. Opinbera heimsóknin dynur á hvað úr hverju... JEY! Ég get hreinlega ekki beðið eftir að fá liðið í heimsókn. Kannski ég ætti samt að reyna að muna eftir að fá lánaða sæng hjá Siggu frænku svo því verði ekki alltof kalt... hver veit!

09 nóvember, 2004

Lasin

Já, nú er ég búin að gefast upp og viðurkenna að ég er lasin. Ætlaði samt ekkert að gefa mig sko, en í gær þá erum við að tala um að það lak úr nefinu á mér á bókina sem ég hélt á. Svolítið skondið, hef aldrei lent í svoleiðis áður, hafði ekki undan við að snýta mér. Svo er hausinn að springa, ég held að þetta séu ennisholurnar frægu. Aldrei geta þær verið þægar...
Annars er það að frétta af skýrslunni að ég sökka feitt. Var búin að skrifa og skrifa á dönsku og svo þegar ég hitti hina krakkana í hópnum þá féll það sem ég hafði skrifað ekki alveg að þeirra hugmyndum svo ég verð að umskrifa draslið. Það er ekkert smá mikið bögg að vera svona mállaus og geta ekkert útskýrt eða sagt. Er að verða pínku þreytt á því!!
En fyrir ykkur sem ekki eruð alveg viss á dönskunni ykkar þá er Óli með dönskukennslu í kommentunum við síðustu færslu. Þetta er eðaldanska sem allir sem ætla sér að sækja Danmörku heim verða að kunna...

07 nóvember, 2004

Fötlun

Já, það er ekkert nema fötlun að vera mállaus. Ég á vafalítið eftir að deyja ellidauða við skýrsluskrif á dönsku nema ég verði dáin úr leiðindum fyrst. Hvernig datt mér í hug að þetta myndi bara reddast.....ha?

05 nóvember, 2004

Léleg...

ég veit. Er ekki búin að standa mig í blogginu undanfarið. En ég er samt búin að gera nokkrar heiðarlegar tilraunir en blogger hefur bara ekki einu sinni hleypt mér inn á síðuna. Hann er kannski bara að reyna að koma mér í skilning um að ég hafi annað við tímann að gera... Hver veit nema hann sé að reyna að hafa vit fyrir mér. Á nefnilega að vera að skrifa skýrslu í medikoteknik, á dönsku bæ ðe vei. Er ekkert smá spennt! Eða ekki. En það þýðir víst ekki að tala um það, verður að gerast.
Annars þá er búið að vera nóg að gera síðan síðast. Var hjá Ásu í Odense frá föstudegi og fram á mánudagskvöld í góðu yfirlæti. Við fórum í bíó á föstudagskvöldið og tvö partý á laugardagskvöldið sem bæði voru halloween partý svo við vorum að sjálfsögðu í búning. Ég tók myndavélina með og ætla að reyna að koma myndunum inn við fyrsta tækifæri. Svo var bara lært og lært þess á milli.
Svo eru í dag bara 13 dagar í opinberu heimsóknina og búðaleitin fyrir Ínu í fullum gangi. Fór og fann aftur kínaskóabúðina í dag svo nú get ég bara labbað beint í hana án þess að þurfa að leita. Það má nefnilega engan tíma missa þegar þau koma og heimsækja mig, við ætlum að gera svo margt. Hlakka ekkert smá til að fá þau, get bara hreinlega ekki beðið.
Vikan er svo bara búin að fara í þennan dæmigerða lærdóm og skóla. Einu merkilegu fréttirnar eru þær að það er búið að gera við ofninn í herberginu mínu og hann er búinn að vera í botni síðan. Enda er eins og í gróðurhúsi hjá mér og mjög gott að þurfa ekki lengur að vera í öllum fötunum þegar maður situr við skrifborðið og er að læra. Annars var Ragnheiður að gera grín að mér og segja að það væri hægt að lækka á ofninum, held henni finnist svolítið varmt hjá mér!!
Í dag fékk ég síðan fyrstu jólagjöfina í ár. Við Ragnheiður vorum sem sagt í bæjarferð þar sem ég þurfti að finna kínaskóabúðina og er farin aðeins að skipuleggja jólagjafirnar. Við fórum svo á kaffihús og ég drakk heitt súkkulaði og borðaði cookie með. Mjög næs, sátum bara og horfðum á fólkið á strikinu burðast með alla innkaupapokana og svona. Og þetta var sko alvöru heitt súkkulaði sem ég fékk. Þetta var hituð mjólk sem í var sett prik með stærðar súkkulaðibita á og ég þurfti að hræra súkkulaðinu saman við á meðan það bráðnaði. Uuuummmmm. Á pottþétt eftir að fá mér svona aftur. Svo sá ég í fyrsta skipti í dag á strikinu "súkkulaðibúðina"!! Skil ekki hvernig þessi búð hefur farið framhjá mér áður, það er nefnilega súkkulaðigosbrunnur í glugganum. Já Óli, hún fór framhjá mér. Hef ekki hugmynd um hvernig ég hef farið að því að labba svona oft framhjá henni. En jólagjöfin já, hún Ragnheiður gaf mér sem sagt jólagjöfina mína í dag. Keypti handa mér æðislega loðna inniskó svo nú á mér aldrei aftur eftir að verða kalt á tásunum og ég get hætt að vera alltaf í skónum. Er ekkert smá ánægð með þá, verð að finna eitthvað svaka flott handa Ragnheiði. Ef þið hafið hugmyndir þá eru þær vel þegnar. Verður að vera eitthvað mjög flott og skemmtilegt. Bæjarferðin endaði svo í bíó. Sáum mynd sem heitir Inkasso og er dönsk. Ég skemmti mér alveg konunglega og mæli eindregið með þessari mynd. Hún er mjög hressandi. Verð samt að kvarta yfir því hvað það var kalt í bíósalnum. Ég sat allan tímann í úlpunni og með vettlinga og bæði Ragnheiður og konan hinum megin við mig sátu með úlpuna breidda yfir sig allan tíman. Og ég lenti í fyrsta skipti í því að þurfa að svara skoðanakönnun skriflega í bíó! Svolítið skondið.