Sæl veriði.
Ég hef fengið það mikilvæga verkefni að skrá niður það sem gert var með frú Borghildi og Herra Rúnari. Hér kemur stuttur en greinargóður útdráttur:
Ína og Rúnar lentu í Mörkinni afar stundvíslega á laugardeginum 27. október síðastliðnum. Mikill meðvindur var með flugvélinni, svo mikill meðvindur að við skötuhjú vorum ekki mætt á flugvöllinn til að taka á móti þeim á réttum tíma.
Við hittum á þau á endanum og þá var haldið heim á leið, fyrir utan afar stutt stopp á stórgóða "veitingastaðnu" Steff Houlberg þar sem við Rúnar vorum pulsaðir upp.
Ákveðið var að fara ekki í bæinn um leið og þau lentu...afar góð ákvörðun verð ég að segja. Farið var því á Dalstrikið þar sem úðað var í sig sælgæti og slakað á. Ákveðið var svo að fara út að borða um kvöldið á hinum margfræga ítalska stað "Italiano" á Fiolstræde. Leynigestur kom með okkur í matinn, enginn annar en poolarinn og vinnufélagi minn, Tryggvi. Hann var á leið til Liverpool að sjá Liverpool - Arsenal á sunnudeginum en ákvað í einhverju stundarbrjálæðinu að það væri sniðugt að vera eina nótt í köben áður.
Maturinn var alveg þokkalegur hjá þeim "ítölunum" en þó vantaði þjónasönginn ógurlega, þar sem okkur var plantað niður í kjallara. Eftir mat skrapp Tryggvi á röltið í Nyhavn á meðan við "gamla" fólkið fórum heim að sofa.
Sunnudagurinn var síðan heldur betur crazy. Eftir að hafa sofið út (allir nema Eyja þar sem hún var að læra um morguninn) fengu Eyja og Ína þá "snilldar"hugmynd að fara á einhvern Flóamarkað. Þessi flóamarkaður væri bara 2var á ári og því væri nánast nauðsynlegt að fara.Þá var haldið í'ann og eftir að hafa borgað sig inn (afar spes að borga sig inn á flóamarkað) blöstu við okkur svona ca. 1000 básar. Við Rúnar spottuðum fljótt helstu útgönguleiðir af markaðnum þar sem Kolaportið er bara ganga í garðinum (ens: Walk in the park) miðað við þessa hörmung. Endalausar raðir og stæður af notuðu dóti fötum og sumt algjört rusl.
Eitthvað keyptu þær systur sér á markaðnum, þó aðallega leirtau og kertastjaka (þar sem okkur vantar alltaf kertastjaka..yebb..I've been brainwashed!!).
Þar sem planið var að vera þarna inni í dágóðan tíma neyddust þær til að gefa okkur Rúnari pylsur til að halda okkur góðum. Þær voru meira að segja alls ekki góðar.
Eftir að hafa þrammað þarna sikk sakk á milli básanna í nokkra klukkutíma var okkur Rúnari nóg boðið og settumst við í eina sætið sem var í húsinu....stigann. Stelpurnar vorkenndu okkur svo mikið að við fengum bland í poka...
Á mánudeginum var Fields tekið með trompi. Visakortið hans Rúnars brann næstum yfir í North Face búðinni og í H&M og mitt kort fékk nú aðeins að finna fyrir því líka. Þar sem við Rúnar vorum á leiðinni á 2 tíma knattspyrnuæfingu um kvöldið gátum við "aðeins" verið að versla til hálf 7 þar sem ekki er æskilegt að borða rétt fyrir æfingu. Klyfjaðir pokum skelltum við okkur í Metroinn, átum og við Rúnar skemmtum okkur konunglega í bolta á meðan stelpurnar höfðu stelpukvöld.
Þriðjudagurinn var afar rólegur þar sem kæla þurfti Visa kortin niður, og Eyja neyddist til að vera í skólanum til hvorki meira né minna en 17:00. Ég var því að vinna langt fram eftir degi á meðan Ína og Rúnar horfðu á eins og eina seríu af House.
Á miðvikudeginum höfðu Visakortin náð sínu rétta hitastigi aftur og því var þrammað í bæinn. Mitt kort fékk að hvíla sig í veskinu á meðan kortið hans Rúnars fékk að finna fyrir því..
Ekki var gert meira þann daginn annað en að borða og slaka á.
Á fimmtudeginum fórum við Eyja í skólann fram á miðjan dag og er heim var komið var tekin sú mikla, og verð ég að segja góða, ákvörðun að Eyja og Ína ætluðu að mæla Fisketorvet út á meðan við Rúnar ætluðum að vera bara heima, þar sem aftur var komið að knattspyrnu. Við Rúnar fórum svo "rómantískt" út að borða á Fik-Ret og fengum okkur pizzu. Síðan var farið í knattspyrnu og svo í beddann.
Ákveðið var að eyða síðasta heila degi Ínu og Rúnars í köben í hinum stórgóða dýragarði. Þar sem ég var að vinna til hádegis var farið í Zoologisk Have um klukkan 1. Höfðum við því 3 tíma til þess að skanna garðinn.
Það gekk að sjálfsögðu eins og í sögu enda ég gríðarlega öflugur leiðsögumaður.
Eftir dýragarðinn var farið á stórteiknimyndina Ratatouille (þar sem rotta er kokkur - afar sérstakt) og var þetta ágætis ræma. Hins vegar mættum við frekar í seinna laginu og gátum við Rúnar því hvorki fengið popp né kók. Því fær þessi bíóferð ekki margar stjörnur...
Á laugardeginum var svo komið að brottför Í&R. Fyrst var farið að sækja milljónirnar þeirra í Tax Refund (þar sem leiðbeiningarnar eru á íslensku!!) og svo valhoppuðu þau út í vél.
Mjög ánægjulegt að hafa þau hérna hjá okkur, og ekki spillti íslenska nammið mikið fyrir. :)
Nú er næsta mál á dagskrá hópavinnuverkefni hjá okkur báðum og konungleg heimsókn næsta miðvikudag. Tengdaforeldrarnir ætla að heiðra okkur með nærveru sinni í rúma viku og getum við Eyja varla beðið eftir að sýna þeim allt sem Dalstrikið hefur upp á að bjóða; gamlar konur með göngugrindur, sólbaðsþvottahús (getur tanað á meðan þú þværð..ekki amalegt það) ásamt öðrum skemmtilegum fídusum.
Þar til síðar....
Óli