18 febrúar, 2008

Fréttir frá DK

Já... það er nú yfirleitt eitthvað að frétta hérna megin sko. Nú er það helst í fréttum að ég er minnst með þrjá plástra á fingrunum þessa dagana þar sem ég ræð ekkert við fínu hnífana sem við Óli fengum í jólagjöf (eru sko til að nota í eldhúsinu!!). Og í kvöld... eftir að ég missti næstum vísifingur hægri handar... er búið að setja mig í bann. Svo nú má ég ekki nota þá um óákveðinn tíma... sem hentar vel þar sem Óli verður þá bara að sjá um þessa hlið eldhússtarfanna í þennan óákveðna tíma ;o)

Svo er líka annað í fréttum. Hjólið mitt borðar gallabuxur. Fyrir svona 10 dögum síðan þá varð ég var við að það var að koma gat á uppáhaldsgallabuxurnar mínar. Ég gat svo sem alveg séð það á staðsetningunni að þetta voru hjólahnakksmeiðsli sem hrjáðu fínu gallabuxurnar en ég gaf mig ekki og hélt ótrauð áfram að nota þær. Svo vorum við Óli eitthvað að sprella þegar við vorum að labba heim úr lestinni í eitt skiptið og Óli þurfti endilega að fá að prófa að taka mig á hestbak... ég sá það of seint að hann gerði þetta að sjálfsögðu bara til að gatið á buxunum mínum yrði svo stórt að ég yrði að henda þeim... Þetta var mikill sorgardagur. Ég þurfti því að sætta mig við að eiga bara næstuppáhaldsgallabuxur og svo einhverjar sem eru sko bara svona semi. Nema þegar ég sveifla mér upp á hjólið síðasta föstudag hvað haldiði að gerist. Jújú... það kom gat á næstuppáhaldsgallabuxurnar og þær eru á leiðinni í ruslið. Svo nú er ég á náttbuxum (eðalnáttbuxurnar frá Fjólu!!) eða á föðurlandinum til skiptis, auk þess sem hjólið er í skammarkróknum, þar sem ég tími ekki að gata fleiri buxur í bili (er líka að verða uppiskroppa með buxur)...

14 febrúar, 2008

Raunarsaga úr skólanum

Jæja, sæl veriði. Gleraugnaglámurinn mættur á bloggið og allt að gerast. Ætla að hefja þetta á smá raunarsögu úr skólanum hjá mér sem gerðist í dag:

Þannig er mál með vexti að í GMP kúrsinum sem ég er í (ætla nú ekki að útskýra þann kúrs neitt frekar - Actavis fólk veit allavegana nákvæmlega um hvað ræðir) voru kennararnir svo sniðugir að draga í 5 manna hópa af nemendum sem hafa ólíkan bakgrunn. Þannig lenti ég í hópi með einum frá Grikklandi, 2 Dönum og 1 Indverja. Gríðarlega fjölþjóðlegur hópur þar á ferð.
Verkefni dagsins var að halda örlitla kynningu á heimaverkefninu (sem ég ætla nú ekki að fara út í) og höfðum við í hópnum skipt kynningunni niður í 4 hluta, þar sem annar Daninn (og eina stelpan í hópnum) var í sínu árlega skíðaferðalagi á Himmelbjerget (eða nánast).
Fyrstur tók til máls Grikkinn Antonios sem talar ekki sérstaklega góða ensku, en maður skilur nú samt svona nokkurn veginn hvað hann er að tala um ef maður einbeitir sér svolítið að hlusta á hann. Hann kláraði sinn hluta nokkurn veginn ágætlega. Næstur í pontu var yours truly og verð ég að segja eins og er, fyrirlestrar eru ekki mín sterkasta hlið (svo ég vitna í "my near death experience" í fiskalíffræðinni í gamla daga þegar við Rakel héldum fyrirlesturinn um hornsílin).
Komst ég þó þokkalega í gegnum þetta þó maður hafi stamað töluvert á sumum stöðum.
Næstur á mælendaskrá var annar daninn og hann gerði þetta bara þokkalega...allt í lagi með það. En svo var það rúsínan í pylsuendanum, Indverjinn Suresh.
Það er skemmst frá því að segja að ég efast stórlega um að nokkur lifandi sála hafi skilið hvað hann sagði. Þeir sem þekkja til Indverja og enskunnar þeirra (þ.e.a.s. talað mál-vitna alltaf í Tilda Bashmati auglýsinguna góðu sem tröllreið landanum hérna um árið) geta rétt ímyndað sér Indverja tala á öðru hundraðinu um einhverjar reglugerðir GMP. Og við, hópmeðlimir hans, áttum afar bágt með okkur þarna uppi við töflu og maður þurfti að berjast við hláturinn. Þegar maður leit svo í átt að áhorfendaskaranum, voru þau öll í svipuðum vandræðum!! En hann Suresh var mjög einbeittur, í sparifötunum og svoleiðis og horfði nánast allan tímann á kennarann sem gat lítið annað gert en að kinka kolli til samþykkis um að hann hafi skilið hann......sem ég efast reyndar stórlega um.
Lítil saga úr skólanum.....rosalega skemmtilegt..hehe.

Annars er næst á dagskrá að skella sér í golf næsta laugardag. Sigurbjörn, vinnufélagi minn í Actavis, er á leiðinni til Köben og þar sem hann er forfallinn golfari ætlar hann að taka golfsettið sitt með sér. Þó að spáin sé ekki sérstök (spáð um 3 stiga hita og glampandi sól á laugardaginn) ætlum við að þramma um völlinn góða og týna nokkrum boltum. Alls ekki leiðinlegt.

En þetta er ágætt í bili,

Hilsen........Óli

10 febrúar, 2008

Dleraujun...

Mér skilst að það ríki nokkur eftirvænting eftir að sjá nýju gleraugu húsbóndans...

Eins og þið kannski vitið þá hefur ekki náðst eðlileg mynd af Ólafi síðan digtal myndavélar komu til sögunnar... svo þið verðið að taka viljann fyrir verkið :o) En svona líta sem sagt nýju dleraujun út...

Svona var samt fyrsta myndin af honum...


Og það þurfti sko meira en tvær tilraunir til að ná efri myndinni...

08 febrúar, 2008

Já...

Það gerist alveg ýmislegt hjá okkur sko, við erum bara ekki sérstaklega dugleg að blogga.
Gunnar ætlaði að koma í heimsókn til okkar í gær en hætti við þegar hann var búinn að sitja í 10 tíma í Leifsstöð og kemur vonandi bara við betra tækifæri. Veðrið var víst frekar kreisí á klakanum... Svo við erum bara búin að vera með skeifu í dag en Óli fékk nýju gleraugun svo það bætti þetta aðeins upp!
Svo er mastersverkefnið að hefjast svona hægt og rólega... svo nú er virkilega farið að sjá fyrir endann á þessari skólagöngu... alla vegana í bili!
Annars er Óli bara upp í sófa að horfa á X-factor... ég næ honum líklega ekki þaðan neitt á næstunni :o) Svo ég ætla bara að halda áfram í tölvuleik...