Kommensiesæl...
Langt síðan síðast, ég veit. Margar ástæður fyrir bloggleysi....
Við skötuhjúin skruppum á Frón síðustu helgi en því miður var þetta engin skemmtiför. Hún Amma mín Sigga yfirgaf þennan heim rétt um páskana eftir erfið veikindi og því vorum við í jarðarför. Amma mín var rosalega góð og skemmtileg kona sem dekraði við okkur barnabörnin sem mest hún mátti. Enginn var svikinn af hennar félagsskap og þeir sem þekktu hana höfðu allir það sama að segja um hana; rosalega góð og skemmtileg kona sem var höfðingi heim að sækja og vinur vina sinna. En nú er hún komin til afa Ludwig og Helgu litlu og næsta líf tekur við. Hvíl í friði amma mín.
Þegar við komum síðan heim aftur úr Íslandsförinni tók nístingskuldi á móti okkur (8°C og rigning). Við lendum á Kastrup seint um kvöld (22:00 á staðartíma) og ætlum að drífa okkur sem við getum heim á Dalstroeget. Lestin mætir svo óstundvíslega eins og vanalega akkúrat þegar við erum að skríða niður úr Terminalinu. Eyja ákveður að sjá um að klippa fyrir okkur í lestina á meðan ég átti að passa töskurnar. Auk þess að hafa töskurnar var ég með 2 pylsur í höndunum (Steff Houlberg að sjálfsögðu) sem við splæstum í á flugvellinum því að skraufþurra kjúklingabringan og unaðslega kartöflusalatið voru ekki að gera sig í flugvélinni.
Nú, þegar Eyja gekk í humátt að klippikössunum komst hún að því, henni til mikillar ánægju, að kassarnir voru allir bilaðir sem voru við þennan staur, en útundan sér sá hún aðra 2 kassa í fjarska sem virtust vera í lagi. Hún hleypur í áttina að kössunum og biður mig um að þoka mér í áttina að lestinni, þar sem hún átti að fara eftir 2 mínútur. Ég misskildi hana eitthvað (eða ákvað eitthvað annað en það sem hún sagði mér, eins og gerist stundum) og vippaði mér bara inn í lestina með 2 ferðatöskur, 1 fartölvu, 2 plastpoka og 2 pylsur. Þegar inn var komið heyri ég í fjarska ógnvænlega flautið hjá lestarverðinum um að nú ætli lestin að fara. Nú voru góð ráð dýr! Ég var inni í lestinni, með nánast allan farangurinn en engan farmiða, á meðan Eyja var enn úti að bíða eftir að komast að kassanum. Rek ég höfuðið því leiftursnöggt út úr lestinni og kalla í Eyju. Þá heyri ég bara eitt orð: " ÚT, ÚT" endurtekið nokkrum sinnum. Þannig að ég sný mér aftur að töskunum, sting pylsunum upp í mig og dröslast með allt dótið út. Úfff...þarna rétt slapp ég við að borga 600 dkr í sekt fyrir að vera ekki með farmiða. Nú, því næst skima ég á eftir Eyju og sé hana hvergi á brautarpallinum (NB enn með 2 pylsur í munninum, 2 plastpoka, 2 ferðatöskur og 1 fartölvu)....sé ég hana ekki valhoppa (eða allt að því) inni í lestinni að þeim stað þar sem ég stóð áður með allt draslið, hæstánægð með að hafa náð að klippa. Við skulum allavegana segja sem svo að hún fékk aldeilis mikið fyrir klippið....fékk 2 ferðir til Tårnby í stað einnar. Hún þurfti s.s. að fara þangað og til baka aftur til að sækja mig, þar sem ég var ekki með neina lestarmiða, eða pening eða neitt.
Gæti trúað því að ég hafi litið frekar fíflalega út á brautarpallinum með allt þetta drasl, með pylsurnar upp í munninum og konuna inni í lestinni.
Mental note to yourself: Það kemur (yfirleitt) alltaf önnur lest strax á eftir þessari!!!
Hilsen,
Óli, PTT (útleggst á engilsaxnesku Professional Train Traveler)