25 október, 2007

25. október



Já haldiði ekki bara að þessi myndarlegi á myndinni eigi afmæli í dag! Langaði bara til að segja ykkur frá því og að sjálfsögðu að óska honum til hamingju. Myndin er tekin í sumar heima á Íslandi þegar hann var búinn að fá afmælisgjöfina frá mér. Við sáum fyrir okkur að þetta myndi hvort sem er ekki koma að neinum notum hérna megin við hafið þegar líða væri farið að jólum svo hann fékk þetta aðeins fyrir fram!

En alla vegana... til hamingju með daginn sæti ;o)

20 október, 2007

Og Óli fékk að fara í ZOO


Það var nú hálf kjánalegt að vera í haustfríi og nota ekki góða veðrið til að fara í ZOO svo við skelltum okkur í heimsókn í gær. Þetta var voða fín ferð, en það bregst ekki, það er skítakuldi í dýragarðinum alltaf. Vorum í úlpu og með húfu og vettlinga auk þess sem undirrituð var að sjálfsögðu í sokkabuxum til öryggis og það veitti sko ekki af. Annars vil ég meina að ég hafi ekki verið minni attraction en dýrin... er nefnilega svo "heppin" þessa dagana að ég er með frunsu sem þekur hálft andlitið og vekur hún töluverða athygli. Það er ekki gaman...

Annars eru bara rólegheit hérna megin þar sem við þurfum að hafa nóga orku þegar Ína og Rúnar birtast... og það er ekki nema vika þangað til. Vona bara að Ína verði með smá geðheilsu eftir þegar þar kemur sögu, listinn sem hún er með yfir verkefni og aðra gleði sem ganga þarf frá í vikunni var svo langur að mig svimaði! Er hætt að væla í bili alla vegana...

Svo erum við búin að fjárfesta í flugmiðum heim um jólin og verðum á klakanum um miðjan dag 17. des. Svo verður haldið norður yfir heiðar mjög fljótlega upp úr því. Og þar sem Danirnir vinir mínir voru svo indælir að setja á eins og eitt ljótt próf rétt rúmlega áramót þá förum við aftur út 27. des!! Sem er náttúrulega bara rugl. En við eigum stefnumót við Halla og Yeldu um áramótin svo það lítur út fyrir að við verðum í Svíþjóð þessi áramót. Það verður gaman að prófa það ;o)

16 október, 2007

Vetrarfrí

Já, við erum í fríi og það er snilld. Verst að maður verður automatiskt latur þegar maður er í fríi.

Annars er bara gott að frétta. Við hittum Magga á föstudaginn og fengum fullt af osti svo nú verður sko standandi pastaveisla fram að jólum. Maggi var bara hress, og mér skildist á honum að restin af þessum Fjölnismönnum væri jafnvel enn hressari. En ég veit ekki betur en að þeir séu allir komnir heim til Íslands meira eða minna heilir...

Helginni eyddum við síðan í rólegheitum í Malmö með Halla og Yeldu. Það var voða fínt og svooo mikil afslöppun. Pabbi hennar Yeldu rekur líka eina af sætari búðum sem ég hef komið í. Hann selur te og allt sem til þarf við að drekka te og ég alveg missti mig í búðinni. Sit núna eins og fín frú með nýjan bolla og margar tegundir af te-i ;o)

Svo er ég bara að reyna að berja Ólaf áfram við lesturinn. Það gengur hins vegar ekki neitt svo ég er að hugsa um að gefa það bara upp á bátinn. Það er nóg að vera bara stressaður yfir sínu eigins námi held ég :o) Veit heldur ekki hvort Óli sé neitt svo ánægður með þessa afskiptasemi mína... ef út í það er farið. Næst á dagskrá er samt að fara í Zoologisk have þegar hann er búinn að vera duglegur á minn mælikvarða... verður spennandi að sjá hvort það tekst... hihihi

10 október, 2007

Búðarslys!

Jæja...leikurinn búinn.......FH meistarar en Fjölnismenn eiga hrós skilið fyrir árangur sinn. Nú verður maður að halda með 2 liðum í Landsbankadeildinni á næsta ári. :) Það gerir deildina bara enn skemmtilegri fyrir vikið.
Annars lenti ég í smá slysi í Nettó áðan. Málavextir voru eftirfarandi:
Við skötuhjú ákváðum að fara í okkar vikulegu verslunarferð í Nettó með langan lista af vörum sem átti að kaupa. Við fengum okkur körfu á hjólum til tilbreytingar svo við þyrftum ekki að rogast með allt draslið.

Þegar við höfðum týnt allt til sem var á listanum (og var fáanlegt í Nettó) ofan í körfuna, svigað fram hjá gömlu konunum með göngugrindurnar og vorum komin að kassanum, byrjuðu ósköpin...

Við tökum okkur stöðu við kassann og byrjum að hamast við að hlaða vörunum á færibandið í sameiningu svona svo að allt fólkið sem beið í röð myndi komast fyrr á kassann. Þegar síðan loks sást til botns á körfunni fór ég hinum meginn við kassann og byrjaði, af mikilli fagmennsku, að raða í pokana. Þarna vorum við að vinna okkur inn nokkrar góðar mínútur í millitíma...

Þegar ég hafði raðað í 3 fulla poka dundu ósköpin yfir....
Ég ákvað í flýti að sleppa einum pokanum, rétt á meðan ég myndi klára að raða í einn af hinum pokunum, og það hefði ég nú ekki átt að gera. Í þann mund sem ég er að snúa mér við sé ég útundan mér eitthvað hvítt á fleygiferð í áttina að gólfinu.

Þar sem ég er með viðbragð á við pardusdýr stökk ég í áttina að hvíta hlutnum, sem reyndist að sjálfsögðu vera einn af innkaupapokunum, og reyndi að bjarga því sem hægt var að bjarga. Það lukkaðist ekki betur en svo að sultukrukkan sem við höfðum fjárfest í, smallaðist yfir gólfið og allt góssið sem var í pokanum lenti að sjálfsögðu ofan í sultunni.
Þarna stóð ég því í miðjum sultupollinum, með fulla búð af óþreyjufullum gamlingjum sem allir biðu eftir því að komast heim að elda kvöldmatinn, og ég var að tefja þau.

Athugið: Sultukrukkan hér að ofan tengist málinu á engan hátt.

Það næsta sem gerist er að einn búðarsnáði kemur hlaupandi með pappír (ekkert skúringadót notað á þessum bænum) og þurrkar þetta samviskusamlega upp. Hann hélt í fyrstu að ég hafði slasað mig þar sem hendurnar voru löðrandi í sultu! En svo var nú sem betur fer ekki....

Mental note to myself: Næst kaupi ég sultukrukku í plastflösku.......eða læri hreinlega að raða í poka!!

Annars er töluvert mikið á döfinni næstu daga hjá okkur hjónaleysum: Menningarnótt næsta föstudagskvöld ásamt nokkrum hressum Fjölnismönnum (þó aðallega Magga), dagur í Malmö á laugardaginn hjá Halla og Yeldu og svo tekur próflestur (a.m.k. hjá mér) við.

Síðan er afar stutt í afmælið mitt (einmitt sama dag og ég fer í próf) og stuttu seinna megum við eiga von á fyrstu opinberu heimsókninni okkar í haust: Frú Borghildur og Rúnsi boy.

Yfirraðarinn kveður að sinni...

06 október, 2007

Bikarúrslit!!














Í dag verða bikarúrslitin í Visa-bikar karla háð þetta árið. Úrslitaleikurinn er sérstakur vegna þess að til úrslita leika Fimleikafélagið og Fjölnir.
Á venjulegum degi myndi maður öskra áfram FH allan tímann og styðja mína menn, FH-ingana, í blíðu og stríðu.
Þannig er samt mál með vexti að mágur minn, Magnús Ingi, er fyrirliði Fjölnismanna þannig að nú er maður á báðum áttum hvað skal gera...

Hef ég að því tilefni gert dauðaleit í öllum sportvörubúðum í DK til þess að finna gula, hvíta og svarta treyju til þess að styðja bæði lið. Það hefur því miður lítið gengið......

Því hef ég ákveðið að horfa bara á leikinn á nærbuxunum.........

Áfram F(jölnir)H

05 október, 2007

Tónlist og fótbolti

Jæja, ætli það sé ekki best að ég reyni að blogga eitthvað líka, svo að Eyja sé ein um þetta.

Það er markverðast í fréttum að síðastliðið miðvikudagskvöld skelltum við skötuhjú okkur á tónleika með Pétri Ben í Lille Vega. Áður en haldið var á tónleikana fórum við í "fyrirpartý" til Maju fyrrum starfsmann Actavis IS, núverandi starfsmann Actavis DK. Boðið var upp á dýrindis kjúklingasalat og meððí...afskaplega ljúffengt. Með í för voru Elsa Steinunn (fyrrum Actavis skvísa) og Karólína (sem tengist Actavis ekki neitt). Ég var s.s. eini haninn í hænsnahúsinu....gaman af því.

Tónleikarnir voru alveg hreint magnaðir. Pétur Ben ávallt góður og ekki skemmdi fyrir að Sigtryggur Baldursson (a.k.a. Bogomil Font) spilaði á trommur með Pétri Ben og Bogomil sá um skemmtiatriðin á meðan Pétur var að skipta um strengi í gítarnum. Að auki var einstaklega skrítinn, óþekktur (a.m.k. fyrir mína parta) bassaleikari, sem leit út eins og kjötbolla á 2 tannstönglum.....held hann hafi farið í gallabuxurnar svona um 1980 og aldrei farið úr þeim síðan....þrengri buxur hef ég aldrei séð!!

Ólöf Arnalds sá um að hita upp fyrir Pétur og stóð hún sig með stakri prýði. Afskaplega sérstök rödd en flott engu að síður.

Eina sem vantaði uppá að tónleikarnir hefðu fengið 5 diska af 5 mögulegum var sú staðreynd að það voru einungis sæti fyrir brot af tónleikagestum og því þurftu þeir sem mættu svona frekar í seinna fallinu (og við s.s. í þeim hópi) annað hvort að standa eða hreinlega að sitja á gólfinu. Nú, og þar sem Ólöf spilar kannski ekki mestu stuðtónlistina í bransanum settust allir á gólfið um leið og komið var inn.

Ég er hins vegar þeim eiginleikum gæddur (ef eiginleika skyldi kalla) að ég get með mjög illu móti setið á gólfi án bakstuðnings í lengri tíma en 10 sekúndur áður en maður stirðnar upp og fær náladofa. Það er jafnvel spurning um að fara bráðum að teygja á...þannig kemst maður allavegana í sokkana sómasamlega á morgnana!.

Tónleikarnir fá því 4 af 5 mögulegum diskum, félagsskapurinn fær 5 af 5.


Í gær fór ég hins vegar með 3 félögum úr stórklúbbnum Isborg Boldklub að sjá "Byens stolthed" FCK taka á móti Lens í Uefa Bikarnum. Þetta var alveg mögnuð upplifun fyrir mig þar sem þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á svona stóran fótboltaleik með svona mikilli stemmningu. Áhorfendur voru 24 þús, þar af um 23.900 stk sem studdu heimaliðið.
FCK vann glæstan sigur á Lens í framlengdum leik, 2-1, þar sem Jesper Gronkjær skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 115 mín. Alveg gríðarlega spennandi leikur.

Við "sátum" í fremstu röð í Fona stúkunni og það ringdi hressilega á okkur allan tímann....en það kom ekki að sök því við skemmtum okkur konunglega. Læt fylgja hér eina mynd sem ég tók (algjörlega ekki í fókus) áður en batteríið í myndavélinni kláraðist.

Það lítur út eins og það hafi ekki verið neinir áhorfendur á myndinni en það var nú ekki þannig. Ef vel er að gáð má sjá glitta í stuðningsmenn Lens sem voru neðst í hægra horninu í stúkunni bak við markið. Það varð s.s. að hafa töluvert pláss í kringum áhorfendur Lens...

Jæja...þetta er komið gott......

Hilsen,

Óli

02 október, 2007

Á morgun...

Það sem allir hafa beðið eftir með miklum spenningi... ja eða alla vegana við Óli höfum beðið eftir með ofvæni:
Tónleikarnir með Pétri Ben eru á morgun. Vúhú...

Fyrir utan það þá eru einungis eftir 8 skóladagar fyrir haustfrí... Júhú!


Og við eigum miða á Danmark - Island í Parken 21. nóvember... Jibbíkóla

:o)