30 mars, 2008

Þjóðverjar eru nú soldið spes......

Við skötuhjúin sátum uppi í sófa í gærkvöldi og horfðum á eina ræmu. The Italian Job, mögnuð mynd. En það var nú ekki ræman sem hvatti til bloggfærslu að þessu sinni, heldur það sem blasti við okkur á einni af þýsku stöðinni þegar ræman kláraðist...

Þannig er mál með vexti að eins og allir vita eru Þjóðverjar mjög hrifnir af alls kyns skemmtiþáttum þar sem þjóðþekktir einstaklingar mæta í eitthvað sprell, svolítið eins og Á Tali með Hemma Gunn hérna í gamla daga, nema töluvert mikið hallærislegra.
Þáttastjórnandinn var að sjálfsögðu með sítt að aftan í gulljakka, hrikalega töff, og gestirnir voru ekki af verri endanum. Þarna sátu t.a.m. Paris Hilton í sófanum ásamt Oliver Kahn, landsliðsmarkvörður þýska landsliðsins, ásamt fleirum minna þekktum (eða ég þekkti þá ekki). Að sjálfsögðu er einungis töluð þýska í þessum þáttum nema þær örfáu spurningar sem beindust til ungfrú Hilton. Svörum hennar var hins vegar snarað jafnharðan yfir á þýsku.
Eftir nokkra mínútu áhorf æsast hins vegar leikar til muna, áhorfendaskarinn í stúdíóinu heldur vart vatni yfir spenningi...nú var eitthvað gríðarlega spennandi að fara að gerast!!
Ekki slökkti maður á kassanum þegar þarna var komið, svo mikil var spennan og ég næstum jafn spenntur og áhorfendurnir í sjónvarpssal...

Í salinn gengur sólbrúnn karlmaður á miðjum aldri sem kveðst heita Helmut (segjum það bara...man ekki hvað hann heitir) og vera frá Lichtenstein. Hlutverk hans Helmuts í þættinum var s.s. að undirgangast veðmál. Veðmálið snérist út á það að hann átti að reyna að þekkja svona venjulega fótbolta í sundur (það voru 30 stk á einu borðinu) með bundið fyrir augun. Hann átti að segja nákvæmlega um hvaða tegund þetta var og hvaða undirflokkur (þ.e.a.s Adidas Roteira t.d.) og átti að fá 5 tilraunir og varð að geta 4 rétt af þeim.

Þetta var svo sem ekkert óvanalegt, nema hvað að til þess að þekkja þá í sundur ætlaði hann Helmut að nota aðeins tunguna!! Já, þið heyrðuð rétt...tunguna!!!!

Þarna sat s.s. miðaldra karlmaður frá Lichtenstein og sleikti boltana í gríð og erg á meðan salurinn urlaðist af spenningi. Hann stóðst veðmálið með miklum myndarbrag og gat giskað á 4 bolta í röð niður í deilitegundir (eða þannig).


Hér gefur að líta einn af boltunum sem hann giskaði á rétt....þessi er samt þurr!

Þarna erum við að tala um gott sjónvarpsefni!!

Kv. Óli G

p.s. Rómarmyndirnar eru langt á veg komnar, verklok á áætlun!

25 mars, 2008

Aftur í Köben

Sæl veriði.

Jæja, þá erum við komin aftur til Köben eftir afar fínt páska"frí" á Íslandi. Það markverðasta sem gerðist í páskafríinu var að sjálfsögðu ferming litlu systur. Haldin var heljarinnar veisla á Norðurvangi og var fullt hús af frændfólki og vinum. Afar skemmtilegt. Fermingarbarnið, ef barn skal kalla, var held ég mjög lukkuleg með þetta allt saman.

Annars voru öll kvöld og dagar upppantaðir og náðum við alls ekki að hitta alla þá sem við vildum og ætluðum okkur að gera í þessari ferð. Ég verð því að standa mína pligt í sumar þegar ég mæti aftur á klakann og hitta alla sem við misstum af í þessum túr.

Það sem stóð upp úr hjá mér í þessum túr, fyrir utan náttúrulega að hitta fjölskylduna, var flugferð sem Einar Aron vinur minn bauð mér í á föstudaginn langa. Hann er held ég búinn að bjóða mér einu sinni á ári í næstum 10 ár í flugferð með sér, eða allar götur síðan hann fékk einkaflugmannsprófið, og ég hef alltaf hætt við á síðustu stundu (s.s. ekki þorað).

Í þetta skiptið skellti ég mér með honum (væntanlega mest Eyju að þakka þar sem hún sagðist ætla að fara ef ég myndi ekki fara) og í dag sé ég ekki eftir því. Þetta var mjög skemmtileg lífsreynsla og veðrið var alveg frábært. Þó verð ég að ég viðurkenna fúslega að ég var frekar smeykur á stundum þegar teknar voru frekar krappar beygjur (ég vil meina 60° beygjur, en ég held þær hafi nú ekki verið svo krappar). Ælupokinn var með í för en ég hélt í mér og brúkaði hann ekki....maður getur ekki farið að kasta upp í klefa sem rétt rúmar 2 menn!!

Fyrst þegar ég sá vélina sem við ætluðum að fljúga hélt ég að Einar væri að grínast. Ég hef held ég aldrei séð svona litla flugvél áður og var svona á báðum áttum að hætta við þetta allt saman. En ég þrjóskaðist við...sem betur fer.
Það voru teknar 4 snertilendingar á Keflavíkurflugvelli þar sem við lentum meðal annars á eftir Boeing 787 þotu, nokkrar dýfur yfir sumarbústað foreldra Einars við Apavatn og svo almennt útsýnisflug.


Heimahöfn nálgast.........Reykjavík í augsýn!

Fyrir áhugasama er hægt að sjá fleiri myndir úr túrnum með því að smella á þennan link .


Eins og glöggir lesendur sjá er ég s.s. búinn að útbúa aðgang að flickr.com fyrir okkur og kem ég til með að henda slatta af myndum þar inn, t.d. frá Róm sem margir hafa beðið spenntir eftir (að minnsta kosti þessar örfáu hræður sem commenta hjá okkur).


Þessa stundina er ég s.s. að því að græja allar 800 myndirnar sem teknar voru í Róm svo að hægt sé að henda þeim á veraldarvefinn. Áætluð verklok eru í byrjun apríl 2008........en engar dagsektir hafa verið settar á verkið.



kv. Óli G

12 mars, 2008

Jæja... jæja...

Nú er sko allt að gerast... Við erum að koma heim á klaka... ekki seinna en á morgun...

Gleðilega páska allir saman...

07 mars, 2008

Afmælisblogg

Í dag á frú Borghildur Ína afmæli. Að hennar sögn eru árin gríðarlega mörg, eða 24 ár, sem er nú alls ekki svo mikið miðað við gamla manninn hérna á kantinum.


Sýnishorn af gömlu, gömlu.

Við skötuhjú í Danmörku óskum þér til hamingju með afmælið Ína mín og við hlökkum til að sjá þig í næstu viku :)

Annars höldum við áfram að plögga nýju fötunum hennar Ínu í Hagkaupum. Skv. áreiðanlegum upplýsingum er allt að tæmast í hillum Hagkaupa og því fer hver að verða síðastur til að tryggja sér fat/föt úr fyrstu sendingu. Hægt er að sjá úrvalið í verslunum Hagkaupa eða með því að klikka á linkinn hér.

Hilsen,

Óli




03 mars, 2008

Nóg að gera

... þó svo það heyrist lítið frá okkur! Við erum bara svo busy people :o)

Það helsta sem gerst hefur undanfarið er að Gunnar komst að lokum á leiðarenda og var hjá okkur fyrir rúmri viku síðan. Elvar vinur hans kom líka í heimsókn frá Trige, þó svo ferðin hafi frá Trige hafi nú ekki gengið eins og best verður á kosið. Undir venjulegum kringumstæðum tekur ferðin þrjá tíma, en þar sem einhverjum fjörkálfi fannst geðveikt sniðugt að skilja eftir pakka á einni af lestarstöðunum á leiðinni varð ferðin 6 tímar í staðinn. Löggan tekur svona spaugi ekki létt... Annars var nú ýmislegt brallað þessa helgina sko, við heimsóttum bæinn og fórum út að borða, komum við í Christianiu og Experimentarium auk þess sem skytturnar þrjár fóru í partý og máluðu Köben rauða aðfaranótt sunnudagsins. Skildist að pulsusalinn sem þeir heimsóttu á Striknu hafi séð það undir eins að þeir væru Íslendingar plús að þeir borðuðu 3 McDonald hamborgara í eftirrétt eftir risapulsu. Heimferðin var þess vegna ekkert til að hrópa húrra fyrir hjá honum litlabró, sérstaklega þar sem IE bauð upp á hátt í 3 tíma seinkun þetta sunnudagskvöldið ;o)


Þessi mynd er sem sagt tekin áður en timburmennirnir náðu almennilegum tökum á skyttunum þrem!! Í þessari miklu ferð kynnist Gunnar líka kyllekylle og mér skilst að hans sé sárt saknað...

Stuttu eftir að þessu partýi lauk var komið að næsta fjöri. Og það var sko ekkert síðra skal ég segja ykkur. Á miðvikudaginn rann nefnilega upp dagur sem mun seint gleymast. Við fórum að sjá Smashing Pumpkins. Og takk fyrir og góðan daginn... það var bara snilld. Þau spiluðu fullt af nýju efni eeeennnn þau tóku öll gömlu lögin sem ég hafði á óskalistanum og það var svoooo gaman. Mjög erfitt að lýsa þessu í skrifuðu máli... þetta var algjörlega had to be there experience!!

Og félagi Billy Corgan var í síðu silfur pilsi með einhverju fluffi og hann var svooo svalur. Og án þess að íkja nokkuð þá voru samtals 30 gítarar og bassar á sviðinu. Ég hef aldrei séð svona marga gítara og bassa samankomna á einu sviði. Og þeir voru bara hver öðrum flottari. Ég held næstum að ég sé enn með gæsahúð eftir þessa tónleika. Mæli eindregið með SP ef þið fáið tækifæri til að sjá þau!!!

En til þess að ánægjan með tónleikana entist ekki lengi þá uppgötvuðum við okkur til EINSKÆRRAR ánægju á fimmtudagsmorguninn síðasta að millifærslan frá Íslandi til Danmerkur sem ég setti í gang viku áður var ekki að skila sér. Þetta vakti einskæra lukku þar sem við áttum ekki fyrir húsaleigunni inni á danska reikningnum og það tók bæ ðe vei meira en sólarhring áður en peningarnir okkar fundust. Ég hef þess vegna ákveðið að hætta öllum viðskiptum við banka bæði íslenska og danska og fá mér bara solid bankahólf í Sviss. Þangað til sef ég með peningana mína undir koddanum, þá veit ég alla vegana hvar þeir eru!! Það hjálpar nefnilega mikið til við að borga húsaleiguna þegar þjónustufulltrúinn segir: "þessir peningar eru ekkert týndir, þeir eru hérna einhvers staðar, við þurfum bara að finna þá". En bara svo þið séuð með það á hreinu þá er erfitt að nota peninga sem eru hérna EINHVERS STAÐAR... UUUUUrrrrrrrrrrr hvað ég var ekki hress þessa daga...

Og af því að þetta var svo gaman þá veiktist Óli og síðan ég og við erum sem sagt búin að liggja með hor síðan fyrir helgi. Óli hristi þetta samt af sér og tók svona eins og heilsan leyfði þátt í fótboltamótinu Iceland Air Open um helgina og það lítur allt út fyrir að ég hafi heilsu til að takast á við Abaqus og aðra vini mína í meistaraverkefninu aftur frá og með morgundeginum! Og svo er bara stefnan sett á Ísland 13. mars... úlala

P.s. Fötin hennar Ínu systur eru að koma í Hagkaup núna í mars. Ég er búin að sjá myndir og þau eru geggjað fín!! Svo nú er um að gera að fara í Hagkaup fljótlega að shoppa!!