26 nóvember, 2005

Jólajólajóla...

Hellú... eikka að frétta? Hjá mér er nýjast að skýrsluhelvítið í indledende medicinsk billeddannelse er alveg á mörkum þess að vera til... Þvílíkur léttir sem það verður að skila þessu ljóta drasli. Var til hálf eitt í gærkvöldi... já á föstudagskvöldi... uppi í DTU að vinna við þetta rugl. Var líka alveg búin á því, eftir næstum 13 tíma setu. Dagurinn í dag var heldur betri. Er búin að taka þetta með trompi og kaupa næstum allar jólagjafirnar fyrir árið plús afmælisgjöfina hennar Ásu. Ása er svo sannarlega alltaf erfiðust því maður þarf að hafa tvöfalt hugmyndaflug fyrir hana, jólabarnið!
Annar hef ég verið að velta einu fyrir mér. Er ryk í Danmörku eikka klikk? Heima á Íslandi þá kemur yfirleitt bara ryk á gólfið og hillurnar í stofunni (sem ég nenni bæ ðe vei aldrei að þurrka af) en hér þá kemur ryk á loftið. Ég er svo langt frá því að vera að grínast. Það hangir ryk niður úr loftinu. Og það er ekki bara vegna þess hvað ég er léleg að þrífa. Ef þið hafið einhverja góða skýringu handa mér á því hvernig stendur á þessu þá megið endilega láta mig vita... bíð meira að segja spennt!

24 nóvember, 2005

Allt að gerast í Danaveldi!

Undur og stórmerki geta greinilega gerst. Ofninn í herberginu mínu er orðinn heitur. Þetta leit frekar illa út á tímabili því eftir að kallinn kom til að gera við hann þá hitnaði bara einn þriðji af einum þriðja af ofninum. Og ég var að fara að kaupa mér eina sæng í viðbót og að fara að bólstra gluggann í herberginu mínu því það var hreinlega ekki líft fyrir kulda. Nú er hins vegar bara svo heitt að ég get farið að fækka fötum án þess að fá grýlukerti á nefið og þarf ekki að vera í öllum fötunum mínum á meðan ég er að læra! Er ekkert smá ánægð. Og svo tókst mér að ýta bólunni í eyranu inn aftur með öllu þessu poti og hún er horfin. Gæti bara ekki verið betra!!

23 nóvember, 2005

Tilraun

Af því ég lærði svo margt um svona tilraunavinnu og hvernig á og ekki á að haga sér við slíka vinnu í sumar er ég búin að taka upp þráðinn að nýju. Að þessu sinni felst rannsóknin mín í því að athuga hvort það er þreyta sem gerir það að maður getur ekki vakað í tímum eða hvort það er að fyrirlesararnir eru oft á tíðum svo hrútleiðinlegir að maður hreinlega getur ekki gert sér það að vaka heilan fyrirlestur. Þetta hófst allt á mánudaginn og felst í því að ég stefni á að fara að sofa fyrir miðnætti alla þessa viku og jafnvel næstu ef ekki verður búið að afla nægra gagna. Viðmiðunarhóparnir mínir eru tvær vinkonur mínar sem hvorugar fara nokkru sinni í rúmið fyrir miðnætti og önnur þarf meira að segja að vakna kl. 5:45 til að vera mætt í DTU kl. 8 á morgnana. Hef samt ekki sagt þeim frá því að þær séu hluti af þessari merku rannsókn, en það er seinni tíma vandamál. Eftir tveggja daga harða vinnu standa leikar þannig að það eru fyrirlesararnir sem hafa betur. Ég dó næstum í tíma í dag, sem gæti þó stafað af því að fyrirlesarinn var alveg einstaklega leiðinlegur og ekki alveg að gera sig. Þetta er sem sagt alveg æsispennandi og hver veit nema að ég skrifi eins og eina vísindagrein þegar búið verður að vinna úr öllum gögnum...
Annars er ég búin að komast að því að bóla inni í eyranu er alveg hryllilega pirrandi og að ég get ekki hætt að pota í hana þó það sé geggjað vont.

17 nóvember, 2005

Utan við sig...

Ég átti góðan dag í gær. Var búin í skólanum að sitja í góðan tíma og herma insúlín sekretion frá beta-cellum í matlab og var eikka í þungum þönkum á leiðinni heim. Var svo mikið að hugsa eikka bull sem mig hafði dreymt nóttina áður að bara allt í einu var ég komin heim og sting lyklinum í skrána. Það gekk samt ekki alveg upp að opna svo ég fer að líta í kringum mig. Ég var ekki komin alla leið heim, ég var á næstu hæð fyrir neðan... Gott mót Eyja!

14 nóvember, 2005

Myndir...Jæja..þá er komið að því að maður hendi inn einhverjum myndum.........Þar sem mér finnst svona frekar leiðinlegt að blogga..þá er tilvalið að henda nokkrum myndum inn....

Hvað segiði...á ég að halda áfram að henda inn myndum? eða á ég að hætta þessu rugli og halda áfram í fríi frá blogger.com?

En vá hvað ég kann ekki á þetta.....það verður bara að hafa það?

Jafnframt er þetta myndagetraun.......spurt er...hvað heitir fuglinn???? Að sjálfsögðu er spurt um 2 fuglategundir.......Afar áhugavert... ;)

kv. ÓliG

13 nóvember, 2005

Æm in löv....


With ZORRO!!!

10 nóvember, 2005

Hallóhalló

Ég er á lífi þó svo að það hafi verið tæpt á því um helgina. Að vera veikur með ógislegan hósta og höfuðverk og almenna utilpashed er ekki ofarlega á vinsældarlistanum... Að vera veikur með ógislegan hósta og höfuðverk og almenna utilpashed um helgi nær varla inn á óvinsældarlistann. En að vera veikur með ógislegan hósta og höfuðverk og almenn utilpashed um helgi og þurfa samt sem áður að eyða helginni við skýrsluskrif uppi í DTU er svo langt frá að komast inn á nokkurn lista, hvort sem um er að ræða vinsældar eða óvinsældar... Ég átti sem sagt góða helgi síðast, því betur að koma ný sem getur hreinlega ekki orðið jafnslæm jafnvel þó ógeðis hóstinn sé ekkert á leiðinni heim til sín.
Er annars búin að setja mér nýtt markmið. Ætla ekki að kroppa sár á hökuna á mér aftur fyrr en þessi fimm sem er búið að kroppa nú þegar eru gróin... Ætli þau grói áður en ég gifti mig??

03 nóvember, 2005

Larýlarý

Í gær fékk ég tvö bréf með póstinum. Held að þvílíkt og annað eins hafi varla gerst síðan ég flutti til DK. Annað bréfið var nú svo sem ekki það merkilegasta. Ég er bara svo skemmtileg að Tívolí vill endilega að ég endurnýji árskortið mitt. Hitt bréfið var öllu meira spennandi. Mér er boðið í brúðkaup hjá litlu systur og ranúri 21. des og Óli má meira að segja koma með. Ég er svo spennt og hlakka svo geggjað til að það er eikka grín. Þetta verður algjört æði og langar mig bara að segja takk fyrir boðið sætu ;o) Þetta er held ég það markverðasta sem drifið hefur á daga mína í þessari viku... sem sagt ekki mikið að gera annað en læra og sofa og borða nóakropp!!
En ég er búin að komast að því að ef maður notar eurokortið sitt í útlöndum í samfellt eitt ár þá bjóða gaurarnir hjá euro manni gullkort frítt. Ég var sem sagt að fá gullkort inn um bréfalúguna og nota ég samt kortið mjög lítið samanborið við Óla minn sem oftar en ekki fær kennitölur inn um bréfalúguna. Óli er í sannleika sagt svolítið svekktur núna þar sem honum var ekki boðið gullkort... Það var samt hringt í mig frá euro á meðan ég var heima í haustfríi og ég hélt að það væri einhver að spurja um mig sem þekkti mig svo ég svaraði eins og bjáni í símann alveg hgggallllúúú, þá kom hinum megin "góða kvöldið, ég er að hringja frá mastercard..." Alveg með ólíkindum hvað maður getur verið seinheppinn... Lærði samt á þessu atviki að ef það er spurt eftir Arnhildi þá á ég að haga mér almennilega þegar ég svara...
Annars er bara að nálgast háttatíma á bænum. Dagurinn á morgunn verður samt fínn þar sem það er frí í fyrirlestri í fyrramálið svo ég þarf ekki að mæta fyrr en 13:15 í verklegt. Æfingin á morgun felst í að stinga hjúmángús nál inn í upphandlegginn á vel völdu tilraunadýri og senda svo góðan skammt af straum inn í vöðvann... ætla mér ekki að vera tilraunadýrið á morgun, það er alveg nokkuð ljóst. Verður kannski hægt að semja við mig í seinni hlutanum þar sem ekki verður notuð nál heldur yfirborðselektróður sem slengja á á kálfann. Hver hefur ekki gott af smávegis stuði svona seinnipartinn á föstudegi...