28 febrúar, 2007

Snestorm og heimsókn

Kommensiesæl

Síðasta vika hér í DK einkenndist af "brjáluðum" snjóstormi sem setti allt á annan endann hér í Köben. Strætisvagnar og lestar hættu að ganga, skólar og vinnustaðir voru lokaðir og út um allt voru spólandi bílar á sínum fínu sumardekkjum. Okkur Eyju fannst þetta frekar skondið þar sem ekki var um mikinn snjó að ræða, að minnsta kosti ef borið er saman vetraríkið í norðri (lesist Húsavík). Krakkarnir í köben voru svona líka ánægðir með snjóinn að heilu leikskólarnir voru saman komnir í "brekkunni" fyrir utan húsið okkar og skemmtu sér konunglega með sleðana sína, nánast á jafnsléttu.
Það versta í þessu veðri var samt sem áður það að einn daginn vöknuðum við Eyja við það að ekkert netsamband náðist héðan af Dalstrikinu, sérstaklega slæmt þar sem húsfaðirinn brúkar netið í vinnunni. Eyja hringdi þá strax um morguninn og fékk símsvara: "På grunden af snevejret opner vi klokken 10. Ring venligst efter 10". Alveg svakalegt. Þá var víst lítið annað að gera en að bíða þar til klukkan slóg 10 og hringja aftur þá.
Eyja hringir svo klukkan 10 og er þá númer 50 í röðinni. Greinilega fleiri frekar pirraðir á þessu, sérstaklega þar sem sjónvarpið datt út líka. Þegar greyið Eyja fær svo loksins samband við þjónustufulltrúann fær hún þau svör að raki hafi komist inn á sendistöð TDC í hverfinu og viðgerðarmennirnir eru veðurtepptir, þannig að þau geta lítið annað gert en að bíða. Alveg sérstaklega kómískt sérstaklega þar sem einungis var um nokkurra sentimetra jafnfallinn snjó að ræða.
Þetta reddaðist að sjálfsögðu á endanum....þegar sólin skein og þurrkaði sendistöðina.

Annars var innrás frá Fróni um helgina....ungfrú Sigríður og ungherra Magnús voru í besög. Planið var að fara til Malmö á laugardeginum og í Zoologiskehave á sunnudeginum en vegna snjóstormsins var ákveðið að hætta við þau plön, þó svo að ég hefði nú alveg verið til í að vera veðurtepptur í dýragarðinum. :)
Áttum annars notalega helgi og brölluðum ýmislegt, borðuðum góðan mat og drukkum gott vín (við Maggi þá). Það voru engu að síður tvær setningar sem lifa í fersku minni eftir helgina:

"Sniðið var ekki alveg að passa, og svo voru þær líka fóðraðar" - Maggi eftir að hafa skellt sér í leðurbuxur í Fisketorvet.

"Jiiii, hihiihihhihhihihi" - Sigga og "Þetta hlýtur að vera bannað innan 18, trúi ekki að þau hleypi unglingum inn á þetta" - Eyja inni á Museum Erotica.

Myndir á næsta leyti...skelli inn vel völdum myndum úr Dýragarðinum og hugsanlega einhverju meira á næstunni.....

Hilsen,
Óli

19 febrúar, 2007

Kengúrur og önnur pokadýrViðburðarík helgi að baki hér í Danaveldi. Frú Ína og Herra Rúnar eru nú í stálfuglinum á heimleið eftir "shop-'till-you-drop" helgi þar sem H&M var misnotuð ásamt fleiri sérvöldum búðum. Við Rúnar erum núna þekktir í Köben sem "pokadýrin" þar sem það sást iðulega til okkar (en þó ekki í okkur) með mannhæðaháa pokastæðu, yfirleitt dauðuppgefnir á bekk á meðan stúlkurnar þeystust á milli búða.

Við gerðum nú samt ýmislegt annað en að versla, fórum til að mynda í Zoologiske Have í gær og þar rættist gamall draumur minn, því undirritaður er núna stoltur eigandi á árskorti í dýragarðinn. Þarna umbreytast hörðustu menn í lítil börn við það eitt að sjá öll þessi skemmtilegu dýr leika sér. Myndavélin fékk líka að finna fyrir því þann daginn þar sem skotið var stíft á saklausu dýrin. Myndir koma kannski síðar ef litla sys man eftir að kippa með sér Photoshop ;)

Annars horfðum við ekki bara á saklausu dýrin...við gúffuðum þau líka í okkur. Á laugardeginum átti Herra Rúnar afmæli og fékk hann að velja hvað yrði borðað um kvöldið. Hann stakk upp á staðnum Reef And Beef við Ráðhústorgið, ástralskur veitingastaður með ýmsa skringilega og skemmtilega rétti. Við pöntuðum okkur öll svona tilboðsmatseðla sem samanstóð af kengúrum, krókódíl og örlítið minna exótískum mat; reyktum laxi. Bragðaðist þetta allt saman ótrúlega vel og kengúran var hrikalega meyr og góð. Krókódíllinn kom einnig mjög á óvart...svipar svolítið til vel kryddaðs kjúklings.

Skemmtileg helgi að baki og nú hefst alvaran, vinna fyrir mig og læra fyrir Eyju. Eigum þó von á góðum gestum strax á fimmtudaginn þegar Sigga litla systir mín mætir á svæðið og með hálfatvinnumanninn Magnús Inga upp á arminn. Planið verður útbúið síðar.

Hilsen,

Óli

15 febrúar, 2007

Nýjasta nýtt í búðum í DK

Undanfarna daga hafa starfsmenn stórverslunarinnar Orion í verslunarmiðstöðinni Fields ekki haft undan við að afgreiða miðaldra og íturvaxna karlmenn. Þeir eru allir komnir til þess að versla sér nýjustu afurð Orion, karlmannsbrjóstarhaldarann (eða Herre BH). Sjá mynd hér að neðan:Mynd: Hér má sjá fyrirsætuna Casper pósa með græjuna.

Með tilkomu þessara sílíkonhaldara eru öll saggy men's breast úr sögunni og allir miðaldra danskir karlmenn ganga sperrtir og stoltir um götur borgarinnar. Nú geta þeir hætt að styrkja líkamsræktarstöðvar með mánaðarlegum afborgunum og keypt sér þess í stað þessa bráðsniðugu nýjung fyrir aðeins 999 Dkr. Spurning hvenær þessi nýjung tröllríður Fróni?

Til allrar hamingju er ég ekki orðinn miðaldra....og ekki kominn með saggy men's breast....ennþá.

Hilsen,

Óli

14 febrúar, 2007

Fyrsti í heimsókn


Herra Rúnar og Frú Ína.

Á morgun, stundvíslega klukkan 19:40, mæta þessi tvö hér að ofan á Kastrup Lufthavn...framundan er mikið verslunarmaraþon með samblandi af át - og drykkjarveislu. Planið er að bæta á sig 5 kg þessa helgina.....gott plan?
Herra Rúnar á afmæli á laugardaginn og verður hann 26 vetra. Að sjálfsögðu verður haldið upp á það með pompi og prakt með svakalegum tilþrifum í eldhúsinu á Dalstrikinu.

Annars var annar í súkkulaðiköku í dag.....enn og aftur bakaði ég Súkkulaðiköku sætabrauðsdrengsins hans Donna.....alveg óstjórnlega góð kaka. Maður verður nú að reyna að vera myndarlegur gestgjafi og bjóða upp á eina brúna þegar fólk kemur í besøg til Kóngsins.

Anyone fanzy a cake? Þá verðið þið bara að gjöra svo vel og mæta í heimsókn.. :) Tekið er við pöntunum í síma 555 - C A K E...

Hilsen,
Óli

08 febrúar, 2007

Eyja og Óli... á hjóli!

Í upphafi dvalar okkar í Danaveldi fjárfestum við skötuhjúin okkur í hjólum til þess að vera nú eins og hinir Danirnir. Og þó við séum ekki búin að vera hérna lengi þá erum við samt búin að lenda í hremmingum á hjólunum...
Fyrir viku síðan vaknaði ég kl. 6:50 til þess að vera nú mætt í skólann kl. 8:00 á föstudagsmorgni. Þetta gekk vonum framar og var ég ein af 3 sem mættu á réttum tíma í tímann. En hins vegar þegar líða tók á föstudaginn umrædda fór að þykkna upp og um klukkutíma áður en ég var búin í skólanum var farið að rigna og það ekkert smááá... Held að eldur og brennisteinn sé nokkuð góð lýsing... Hjólatúrinn heim úr skólanum var sá blautasti sem ég hef upplifað. Var í frekar þykkri úlpu en var blaut inn að brjóstahaldara og gat undið sokkabuxurnar, sem og annað sem ég var í, þegar ég kom heim... Þetta var ekki neitt sérstaklega spes skal ég segja ykkur...
Svo í gær ákváðum við skötuhjúin að fara í smá hjólatúr og ætlaði ég að sýna Óla leiðina sem ég fer upp í DTU og hann getur notað til að fara í Actavis. (Óli á það nefnilega til að vilja beygja í öfuga átt við mig... og ég hef ALLTAF vinninginn í valinu á réttri leið!!) Þegar við vorum að verða hálfnuð upp í DTU ákveður Óli að setja í fluggírinn en það vill ekki betur en svo að kraftarnir voru svo miklir að keðjan á hjólinu slitnaði. Þetta þýddi því 50 mín. gangur til baka í áttina heim og að eina hjólaverkstæðinu sem við fundum og var opið... En nú er búið að lækna hjólið og Óli hjólar eins og vindurinn um götur Kaupmannahafnar ;o)
Á morgun er svo aftur kominn föstudagur og það er spáð ROKI með stórum stöfum í Danmörku... verður áhugavert að sjá hvernig hjólatúrinn í DTU kemur til með að ganga...

06 febrúar, 2007

(J)Óli Fel

Jáa...núna er arftakinn fyrir Jóa Fel fundinn!!! Haldið ykkur fast.....

Núna, þar sem heimilisfaðirinn er 50 % heimavinnandi hér í Köben, hef ég ákveðið að skella mér í eldamennsku/bakstur, svona svo maður geti gert eitthvað annað en að sprengja pulsur í pottinum eða mauksjóða hrísgrjónin. Er ég búinn að prófa nokkra rétti á mér og Eyju og erum við það minnsta enn á lífi, sem er alltaf skemmtilegra. Ætla ég ekki að uppljóstra um hvaða rétti er að ræða, en þetta eru ekki 1944 réttir eða eitthvað þvíumlíkt...um er að ræða alvöru heimilismat.
Á ferðum mínum um uppskriftarsíður á netinu hef ég helst rekist á uppskriftir sem innihalda alls kyns furðuleg innihaldsefni eins og t.d. sítrónugras, skalottulauk, sanostur og guð má vita hvað, allt væntanlega eitthvað sem höfundar uppskriftanna hafa smellt inn til að gera þetta meira "fanzý". Gangi mér vel að fara í búðina, með mína menntaskóladönsku, og biðja um sítrónugras...já, eða skalottulauk: "Jeg vil gerne ha lemon gras, har du sådan noget"? Nei...held ekki...!
Það sem ég hef því gert í staðinn er að finna eitthvað sem hljómar líkt og það sem er í "fanzý" uppskriftunum og gerir ábyggilega sama gagn. Setti t.d. rauðlauk í stað skalottulauk og mozzarella ost í stað sanosts. Og það hefur bara gengið svona nokkuð upp....allavegana erum við Eyja ekki enn dauð, eins og áður sagði.

En nóg um uppskriftir og hráefni...þá erum við búin að koma okkur fyrir hér á Dalstriki 107 í Köben...íbúðin afskaplega notaleg og fín, þrátt fyrir töluvert hærri skítastaðla hér í Köben en eru á Fróni....maður verður að læra að aðlaga sig að nýjum hefðum, ekki satt?
Í næstu viku fáum við fyrstu heimsókn af líklega mörgum þennan tíma sem við ætlum að vera hérna. Þá ætla Ína "shoppaholic" og Rúnar að draga okkur í bæinn og gæti ég trúað að við Rúnar fáum ekki mikla hvíld út úr þessu, berandi alla poka og kassa sem frú Borghildur kaupir. En ef maður lítur á björtu hliðina, verð ég kannski jafn massaður og Jói Fel og get farið að kaupa mér stutta, hvíta og þrönga stuttermaboli og smella mynd af sjálfum mér framan á sinnepssósur og skinkusalöt.

Over & Out,