28 október, 2004

Alveg nýjar upplifanir!!

Já, ég upplifði alveg nýjan hlut hér í gær. Ég hitti almennilega skrifstofudömu í DTU. Var orðin sannfærð um að þær væru allar með tölu monster. Enda var sú sem ég talaði við í dag ekki skemmtileg svo þessi í gær var greinilega undantekningin sem sannar regluna.

Svo upplifði ég annan nýjan hlut í dag. Ég horfði á Dana gjörsamlega hrynja í götuna á hjólinu sínu. Ég sem hélt að Danir væru grónir á hjólin og hreinlega gætu ekki dottið. En annað kom á daginn.

Svo er ég held ég orðin sannfærð um að karlmenn kunna ekki að leita. Ég bý þessa dagana, eins og þið vitið kannski, í Kaupmannahöfn og geymi karlana mína tvo heima á Íslandi. Svo var haft samband við mig á msn áðan og ég spurð: Eigum við pappír í prentarann? Hvar á ég að leita að honum? Og ég, í allri þessari fjarlægð, náði meira að segja að redda þessu. Þeir eru alveg ótrúlegir, þessar elskur.

Annars þá er það bara Halloween-party með Ásu tásu í Óðinsvé um helgina. Við ætlum sem sagt að hafa lærimaraþon með party-break á laugardagskvöldið. Spurning hvort við náum að standa við stóru orðin... kemur í ljós!!

Góða helgi

25 október, 2004

Sóðaparið

Þetta verðiði að skoða. Það er nefnilega afmæliskveðja til Óla hjá þeim skötuhjúunum og henni fylgir alveg frábær mynd.....hihihi

Merkisdagur!!

Já, dagurinn í dag er alveg stórmerkilegur. Í dag verður nefnilega hann Óli minn 25 ára. Vildi ég þess vegna byrja á að segja innilega til hamingju með daginn ástin mín. Og ekki borða yfir þig af öllum kökunum sæti ;o)

(Ég veit samt alveg að hann á eftir að borða alveg totally yfir sig. Ég þekki hann alveg!)

Annars er bara nokkuð gott að frétta úr stórborginni Köben. Ég prófaði ekta danskt afmæli í gær, með lagkage og öllu tilheyrandi. Varð samt fyrir smávegis vonbrigðum ef ég á að segja eins og er. Dönsk lagkage = íslensk rjómaterta. Ég hélt að þetta yrði einhver svona spes dönsk kaka. En kökurnar voru rosagóðar engu að síður;o) Takk fyrir mig Sigga mín.
Svo er það eitt sem ég er búin að læra á dvöl minni í kóngsins Köben. Hér er fólk rosaduglegt að hlaupa úti og það bara meðfram stærstu umferðargötunum ef því er að skipta. Ég er samt líka búin að sjá það að ég get ekki tekið þátt í þessu heilsuátaki heimamanna. Til þess að vera maður með mönnum verðuru nefnilega annaðhvort að vera í spandex-galla frá toppi til táar eða í svo litlum stuttbuxum að þú hefðir eins getað farið út að skokka í g-streng. Held mig bara við hjólið því á hjólinu máttu vera eins lúðalegur og þú vilt, þú týnist hvort sem er í fjöldanum...
Annars þá fór fjölskyldan hennar Ragnheiðar í morgun. Hjörtur og Ásbjörn skelltu sér á leik í Parken í gærkvöldi. Fóru að sjá F.C. Köbenhavn. En það fór ekki betur en svo að leikurinn var flautaður af eftir 70 mín. þar sem einn tilskuer hafði fallið á milli hæða í áhorfendastúkunni. Og það kom í fréttunum í dag að hann dó eftir þetta mikla fall. Þegar ég svo hjólaði framhjá Parken í hjólatúrnum mínum í dag þá var fólk búið að kveikja á kertum og leggja blóm fyrir utan stúkuna. Og ég sá alveg fullt af fólki á leiðinni með blómvendi. Þetta var mjög sorglegt en líka mjög fallegt. Og svo var líka svo fallegt veður sem gerði þetta enn tilkomumeira.

22 október, 2004

Aftur í Danmörku

Já, nú er fyrstu skólaviku eftir efterårsferie lokið. Og hún gekk nú bara að mestu leyti stóráfallalaust. Ég hef samt ekki verið eins dugleg að læra og ég ætlaði svo helgin verður bara tekin að mestu leyti í lærdóm. Ástæða þess að lærdómurinn hefur farið fyrir lítið er að mér var boðið í afmæli til Mariu frænku í gærkvöldi. Því fór miðvikudagurinn eftir skóla að mestu leyti í að þræða Strikið í leit að afmælisgjöf. Ég endaði að sjálfsögðu í H&M en á þessu ferðalagi mínu fann ég kínaskó á 69 kr en ég er að gera verðsamanburð á þeim!! Í gærkvöldi fékk ég síðan voða góðan mat og tertu í eftirmat sem alveg bjargaði því sem bjargað verður en aftur fór lærdómurinn fyrir lítið;o) Í dag ætlaði ég svo að vera ýkt dugleg en steinsofnaði og ætlaði aldrei að vakna. Er nefnilega búin að fara full seint að sofa og vakna svo full snemma alla vikuna!! Dagurinn í dag endaði síðan úti að borða með Ragnheiði, mömmu hennar, pabba, Hirti og svo vinkonu mömmu hennar. Við fórum á Mamma Rosa við strikið og ég borðaði þessa líka fínu mexíkósku pönnuköku með kjúkling. Á leiðinni heim komum við svo við og skoðuðum Vor Frue Kirke, þar sem krónprinsinn giftist henni Mary í vor. Hún kom mér virkilega á óvart, þetta er rosalega falleg kirkja. Er nefnilega búin að labba nokkrum sinnum framhjá henni og fannst húsið aldrei nógu fínt. En að innan svíkur hún engan. Og svo voru nokkrar myndir úr brúðkaupinu og undirbúningi þess. Meðal þess sem gert var í undirbúningnum var að þvo öll líkneskin og pússa og var ein mynd þar sem var verið að pússa tærnar á einum þeirra. Það var sko öllu skartað í þessu ævintýri. Annars er það að frétta af konungsfjölskyldunni að Alexandra skellti sér í frí til Grikklands held ég með litlu prinsana tvo og Mary þurfti að fara í gallsteinaaðgerð og má því ekki fara á hestbak á næstunni!!!
En nóg um eitthvað sem kannski skiptir ekki miklu máli fyrir mitt líf...Ég er öll að koma til og er farið að líka mun betur hérna megin við hafið. Svo á Óli núna þrjár miða til Danmerkur og ég einn miða til Íslands á næstu 5 mánuðum auk þess sem Ína, Rúnar, mamma og pabbi eiga líka öll miða! Svo maður þarf ekki að kvíða því að manni leiðist þar sem einhvern tímann verður maður að læra!!! Seinni tíma vandamál kannski, ekki satt??

17 október, 2004

Íslandsferðin að líða undir lok

Já, þetta leið sko allt of hratt. Er búin að eiga alveg frábæra daga hérna heima á Fróni og get svo sem ekki sagt að ég hlakki neitt of mikið til þess að fara út. En svona er þetta bara. Ég hef nóg að gera við að læra, er ekki búin að standa mig sérstaklega vel í þeim efnunum hérna heima við. Svo koma nú Óli, Ína og Rúnar í heimsókn eftir mánuð og þá er bara mánuður í jólafrí. Svo þetta á eftir að líða hratt. Svo er eitthvað að gerast í skólamálunum svo þetta verður vonandi viðráðanlegra þegar allt fer að komast á hreint. Ætla annars að fara og klára að pakka og njóta þess að sofa í rúminum mínu síðustu nóttina í bili!! Heyri næst í ykkur frá Köben!! Yfir og út!!!

12 október, 2004

Frábært!

Góðu fréttirnar eða slæmu fréttirnar fyrst???
Góðu fréttirnar:.......hmmmm, engar.
Slæmu fréttirnar: Ísskápurinn minn er bilaður og ég þarf líklega að taka heil 5 fokkings ár í Danmörku ef ég ætla að vera þar, ef ég skil svarið frá DTU rétt.
Góður dagur!

09 október, 2004

Sambandslaus við umheiminn

Sælir!!

Ég er komin heim til Íslands og gleymdi íslenska símakortinu í Köben!! Og danska símakortið er greinilega ekki hægt að nota á Íslandi svo ég er einfaldlega gsmsímalaus!!
Ef þú þarft að ná í mig þá ætti það að vera hægt í síma 464-1045 frá og með seinnipartinum á mánudaginn!

07 október, 2004

Nýtt símanúmer

Já, Danir eiga sína góðu daga. Ég skipti um gsm-nr. í gær og í kaupbæti fékk ég 1001 frítt sms. Svo nú get ég sent sms um allar trissur án þess að borga morðfjár eins og ég þurfti hjá Orangehelvítisdraslinu. Alla vegana, nýja númerið er
+45-25543661
Svo endilega hafðu bara samband.
Er á leiðinni í mat til Siggu frænku og svo að pakka niður því ég er að fara heim á morgun.....JEY
Sjáumst!

03 október, 2004

Sniðugt!!

Ég er að fara heim á föstudaginn. Váá hvað það verður gaman. Mamma og pabbi gáfu mér flug norður og ætla ég mér að dvelja hjá þeim í góðu yfirlæti fram á mánudag. Ég á sko bestu foreldra í heimi. Kærar þakkir fyrir mig. Ólafur er að fara til Möltu á fimmtudaginn svo hann verður hvort sem er ekki heima til að taka á móti mér og því best að skella sér bara norður yfir heiðar.
Annars þá er þetta búið að vera nokkuð rólegur dagur hjá mér í dag. Var að rembast við að lesa sjúkdómafræði og er búin að komast að því að ég er með ristilkrabbamein, þarmakvef, gastroenterit og ég veit ekki hvað og hvað. Og lifrarsýkingin sem ég fékk í fyrrasumar var bara rétt við hliðina á krabbameini í briskirtli. Svona er nú lífið ótrúlegt. Annars þá fór töluverður tími í eðlisfræðikennslu í gegnum msn. Það er farið að ganga svona líka ljómandi vel svo ég er farin að íhuga að taka þetta bara að mér! Eldaði svo lasagne í kvöldmat og þvoði næstum alla brjóstahaldarana mína þar sem upp var komið brjósahaldarahallæri! Íhugaði það samt að henda bara þessum skítugu og skella mér bara í H&M og kaupa nýja, en þar sem fjárhagurinn hefur séð sinn fífil fegri varð þvotturinn niðurstaðan!!
Svo er ég bara að hugsa um að biðja að heilsa í bili því það er kominn háttatími í DK. Heyrumst síðar...

02 október, 2004

Myndir, myndir

Ég er búin að bæta við tveimur myndaalbúmum á heimasíðuna. Annað settið eru örfáar myndir úr Tívolí. Við Ragnheiður skelltum okkur í Tívolí síðasta opnunardaginn og hlustuðum á DAD, eða hvað sem bandið heitir. Það var smá myrkur, og við vorum svolítið langt í burtu. En ef viljinn er fyrir hendi þá er hægt að sjá skjáinn sem var við hliðina á sviðinu. Fólk skemmti sér alveg ágætlega, ég þekkti náttúrulega ekki eitt lag svo það var lige meget!!
Hitt settið er frá því í gærkvöldi. Októberfest í DTU hefst víst alltaf á kerruhlaupi í kringum skólann og felst það í því að klæða sig upp, stela innkaupakerrum úr einum af stórmörkuðunum og fylla þær af bjór. Svo er lagt af stað og það þarf að sjálfsögðu að grilla og borða pylsur á leiðinni, auk þess sem drekka þarf upp allar birgðirnar. Þetta var mjög skemmtilegt, sérstaklega til að byrja með, en þegar það voru liðnir tveir tímar og orðið ógeðslega kallt þá gafst ég upp og tók 150S heim. Upphaflega planið var samt að hitta Einar og Einar á Oktoberfest en það var opið til miðnættis í Field's og það var bara hreinlega of freistandi að skella sér þangað með Ragnheiði!! Ég er alltaf meiri áhugamanneskja um skemmtilegar búðir en bjórdrykkju. Samdi bara við strákana og á inni hjá þeim partýfíling einhvern tímann við tækifæri. Við Ragnheiður kemdum síðan Field's eins og okkur einum er lagið og ég keypti mér bleikan bol og bleika eyrnalokka!! Og það kostaði minna en maturinn sem ég keypti mér. Annars þá lækkar verðið á pítum um 5 kr. danskar frá stue sal og upp á anden sal. Bara svo þið vitið það næst þegar þið eigið leið um Field's. Sá alveg vangefið flotta úlpu. En hún kostar meira en helminginn af mánaðarleigunni svo það verður bara að gleyma því smátt og smátt.
Ég sit núna heima og klukkan að verða hálf ellefu á laugardagskvöldi. Ragnheiður er í partýi sem ég nennti engan veginn með í. Var miklu meira til í að vera heima og fara snemma að sofa. Þekki líka engann í partýinu og þar tala allir dönsku!! Ég þori aldrei að tala dönsku ef það heyrir einhver Íslendingur í mér sem ég þekki... Er líka að æfa mig í dönsku nákvæmlega þessa stundina þar sem ég er að horfa á Olsenbandið í sjónvarpinu! Stefni samt á að fara á dönskutalinámskeið við fyrsta tækifæri. Þýðir ekkert að vera svona ótalandi endalaust! Héðan er annars það að frétta að ég kem heim eftir 5-6 daga eftir því hvernig talið er. Hlakka mikið til. Þarf bara að fara í verklegt í einu fagi og skila einu verkefni og ganga frá öðru áður en að því kemur. Það er nógur tími til þess svo ég er að spá í að fara bara að skríða undir sæng og teppi í náttfötum og sokkum, lesa smávegis og fara svo að sofa. Langar að vísu svo mikið í nammi að ég er að springa. Held samt að ég láti það ekki eftir mér að fara í sjoppuna á horninu, hef ekki gott af meira nammi í bili. Það er nefnilega búið að vera undirstaðan í allri fæðu síðan ég flutti hingað...

01 október, 2004

Góða nótt

Þetta er með ólíkindum. Mér finnst nákvæmlega ekkert vera að gera hérna hjá mér í Danaveldi en samt er alltaf komin nótt þegar ég loksins fatta að ég ætlaði að blogga eikkað. Og það er sama sagan í dag. Nú er komin miðnótt ef út í það er farið og ég ætlaði því bara rétt að segja góða nótt. Ætla að reyna að setja myndir sem ég tók í kvöld á netið einhvern tímann um helgina svo fólk geti séð hvernig kerruhlaup fyrir oktoberfest fer fram í DTU. Danir eru skrítnir...
Annars þá rak ég augun í það, mér til mikillar ánægju, að mér hefur hlotnast sami heiður og Agli. Það er linkur inn á síðuna mína hjá sóðaparinu í Bandaríkjunum. Og ætli Sigga sé ekki bara bæði fótboltahetja og húsmóðir... Alla vegana miðað við það að hún þarf alltaf að sparka Magga af stað, þá held ég það bara!! hehehehe...... Þið getið kíkt inn hjá þeim við tækifæri, var að bæta þeim á listann!

Góða nótt